Hanne Kvist

Dyr med pels - og uden
Hanne Kvist: Dyr med pels – og uden. Skáldsaga í orðum og myndum, Gyldendal, 2016

Í norrænum barna- og unglingabókmenntum er hefð fyrir því að gefa börnum og unglingum orðið á eigin forsendum, án umvandana eða fyrirmæla. Í Danmörku var Ole Lund Kirkegaard einn af þeim fyrstu sem rituðu í þessum anda, en fast á eftir fylgdu Bjarne Reuter og síðar Kim Fupz Aakeson.

Hanne Kvist heldur fast við þessa hefð og endurnýjar hana. Hún hefur áður verið tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir myndabókina To af alting, en þar ljær hún rödd börnum sem mega ekkert fyrir stjórnsömum foreldrum, sem eiga þó nógu erfitt með að hafa stjórn á eigin lífi. Sama er uppi á teningnum í Dyr med pels – og uden („Dýr með feld – og án“, hefur ekki komið út á íslensku), þar sem drengurinn Freddy segir frá lífi sínu; skilnaði foreldranna, nýjum kærustum mömmu sinnar og frá vininum sem hann eignast loksins eftir tíða flutninga.

Þrátt fyrir drungalegt sögusvið er frásagnartónninn fullur af kímni, samlíðan og lífsþrótti, sem tjáð er gegnum aðalpersónuna og sögumanninn Freddy og hinn indæla vin hans, Eskild.

Höfundur hefur meistaraleg tök á nákvæmum en jafnframt fáguðum stíl og skrifar vel mótuð samtöl sem koma sífellt á óvart. Og myndskreytirinn, sem er sama manneskja og rithöfundurinn, hefur fantagóð tök á tjáningarríku myndmáli sem setur hluti í samhengi. Það frumlega og áhrifamesta við verkið felst þó í hæfni höfundar til að samnýta eiginleika þessara tveggja forma: Þetta er ekki myndabók. Þetta er ekki myndasaga. Þetta er tvítyngd frásögn þar sem höfundur velur af kostgæfni það tjáningarform sem aðstæður og framvinda kalla á hverju sinni.

Það fyrsta sem við sjáum af sögunni er mynd af Jörðinni, umkringdri talblöðrum. Því næst tekur Freddy til máls og segir okkur sögu sína, þangað til að hryllingur heimsins veldur því að hann ákveður að þagna. Þar væri rökrétt að frásögnin stöðvaðist eða að skipt yrði um sögumann. En þá birtist þriðji möguleikinn: saga Freddys heldur áfram í myndrænni atburðarás, uns greiðst hefur nægilega mikið úr aðstæðum til að það verði aftur rökrétt að hann taki til máls.

Hér er annað og meira á ferðinni en endurnýjun barnabókaformsins. Þetta er einstök, tvítyngd frásagnarlist.