Helle Helle

Helle Helle

Helle Helle

Photographer
Mikkel Carl
Helle Helle: Hafni fortæller. Skáldsaga, Forlaget Gutkind, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur:

Höfundarverk Helle Helle er stöðugt í þróun og á hreyfingu. Inni í strætisvögnum, uppi í tröppum, úti í skógi, yfir akra, uppi á bensínstöðvum. Í Hafni fortæller („Hafni segir frá“, óþýdd) fer hún enn einu sinni inn á nýjar brautir. Hér býður Helle Helle okkur í smurbrauðsferð í gegnum Danmörku.  

 

Hafni fortæller er hamslaust verk sem einkennist af róttækri tilraunamennsku. Skáldsaga um krísu og um fall, um lífsvilja, firringu, frelsi, sök og skömm, og hin afdrifaríku augnatillit væntinganna. Þetta er einfaldlega skáldsaga um það hvernig maður er. „Ef ég gæti myndi ég líka vilja vera,“ eins og Hafni orðar það í skáldsögunni og nýtir þannig háttarsagnir til að lýsa yfir vilja. Með sportsokkana hífða upp um leggina er Hafni í eilífu tilhlaupi að aðgerðum.  

 

Hin 48 ára gamla Hafni er að skilja. Tímamótin verða til þess að hún heldur af stað í ferðalag sem hana hefur lengi langað í. Hún hefur ákveðið að nú sé góður tími til að smakka sér leið gegnum danska hádegisverðarrétti: stjörnuhrap, síldarauga. Vínarsnitsel með ansjósum, kapers og piparrót – „með dreng ofan á“, eins og það er kallað. „Ég vil engan dreng á kjötið mitt,“ segir Hafni í einni af fjölmörgum fagurlega absúrd vendingum í bókinni. Helle Helle kann öllum öðrum betur að benda á hið furðulega sem býr í menningunni, eins og hefðir tungumálsins sem við eigum til að láta streyma beina leið í gegnum munninn án þess að smakka á þeim. Helle Helle lætur okkur ekki bara velta tungumálinu fyrir okkur, hún lætur okkur hugsa með tungumálinu. 

 

Þetta er skáldsagan hennar Hafni, en einnig skáldsaga tungumálsins. Leiðin að frásögninni liggur gegnum setningarnar. Hjá Helle Helle ræður tungumálið för. „Það má velja sér leið út frá örnefni“, segir í bókinni. Og kannski er það þess vegna sem sagan hverfist um bæinn Pøl á eynni Als, en pøl þýðir drullupollur. Þar er Hafni nefnilega langt niðri, er hreinlega lent í drullupolli. Hún fellur, sekkur, veltur, líka niður í dýpstu myrkur. Tungumálið verður knappt, gefur aðeins það allra nauðsynlegasta uppi, eins og hér: „Svo fóru handleggir og fótleggir út, og brúnirnar sem lyft hafði verið drógu augnlokin ekki með sér.“  


Húmorinn er líka sótsvartur. Og í gegnum hláturinn brýtur ljósið sér leið. Þetta er skáldsaga sem vex og vex eftir því sem á líður, verður stærri og villtari. Eins og þegar höfundur brýtur frásögnina upp inni á milli með grjóthörðum, ferhyrndum textablokkum. Í þeim búa minningaleiftur, ýmiss konar ástand, húsráð í löngum bunum – allt það sem við berum með okkur. Þær hefja sig upp yfir frásögnina eins og hrein ljóðræna, módernískar í slagkrafti sínum. Eða þegar Hafni getur ekki sofið eina nóttina og býður eldri herramanni karamellu í gylltu bréfi, sem fer beina leið gegnum höndina á honum. Er þetta afturganga? Skáldsagan varpar í það minnsta fram spurningum um það hvernig við erum sýnileg sjálfum okkur og öðrum. Það auðveldasta er kannski að herma eftir öðrum, brosa brosi einhvers annars, eins og segir í bókinni. Hjá Hafni er það þannig að skuggi hugmyndarinnar leggst yfir hana og atorku hennar. Væntingarnar sem gerðar eru til hennar, og væntingar hennar til væntinga annarra. Ítrekað stendur hún sjálfa sig að því að detta í já, þar sem hún hefði kannski frekar viljað halla sér að nei-i. Ef einhver segir henni að handsápa með ávaxtailmi sé á tilboði, þá kaupir hún hana. Ef hún fer inn í gallerí kemur hún út með bláa vatnslitamynd af kröbbum. Ef einhver biður hennar fyrir utan Imperial-kvikmyndahúsið, þá giftir hún sig.  

 

Hún þráir það og óttast í senn að vera virkur þátttakandi á hinu mannlega sviði, sem kemur henni í klaufalegar og pínlega skoplegar aðstæður. Til dæmis það að standa í röð í matvörubúð, og standa þar áfram til þess að finna fyrir einhvers konar nánd. Eða að sitja ein á tjaldstæðinu í Nyborg meðan myrkrið sígur á og segja: „Við tvö,“ þegar skordýr sest á borðið. Eða: að upplifa sig frjálsari gagnvart hlutum en gagnvart fólki.  

 

Skáldsagan er full af dásamlegum tvöföldum hreyfingum, núningi og undirtexta. Annars vegar er tortíming sjálfsins með tilheyrandi neitunum (ekki gera þetta, ekki gera hitt), sem knúa Hafni til að biðjast afsökunar á því að biðjast afsökunar. Á hinn bóginn er nokkurs konar þrjóska: „þögn hennar er afturganga í mannlausum rýmum. En hún vill engin mannlaus rými.“ Og þetta staðfestir sagan. Hafni stendur upprétt. Hún talar. Og á meðan Hafni er vissulega upptekin af normum samfélagsins (þótt hún kæri sig ekki um orðið normatíft), þá er Helle Helle óhrædd við að brjóta óskrifaðar reglur stílfræðinnar. Hvaða höfundur annar en hún léti sér detta í hug að hefja skáldsögu á aukasetningu? Og hver annar myndi nefna skáldsögu Hafni fortæller, „Hafni segir frá“, en þó ekki leyfa Hafni sjálfri að segja söguna? Hver annar léti skáldsöguna spilast eins og símtal þar sem aðeins einn aðili talar, á meðan síbreytileg afstaða tjáningar ljáir skáldsögunni fjölröddun? Hver annar flakkar fyrirhafnarlaust milli tíma- og frásagnarsviða og kemur lesandanum til að skella upp úr yfir truflunum í textanum: „Hann sagði, „Hún segir“? Hver annar segir sögu sína ónefndri persónu, sem manni skilst þó að maður hafi hitt fyrr, í skáldsögunum de og Bob, með þeim hætti að höfundarverkið verði að samhangandi, lifandi heild þar sem verkin bæta hvert annað upp og elta hvert annað uppi? Þessar spurningar eru retorískar. Hér er ekki haldið aftur af stílbrögðunum, og enginn fær haldið aftur af Helle Helle.  

 

Lífið gefur manni ávalari handleggi og kannski kemst maður líka að því að það fer í hringi, án línulegrar framvindu. Skáldsagan Hafni fortæller hefur í það minnsta ekki slíka framvindu. Hún vísar ekki veginn. Hún reynir að vera.  

 

Helle Helle hefur löngu sýnt það og sannað að höfundarverki hennar verður ekki ýtt út af sporinu með einni aukasetningu. Margar af skáldsögum hennar eru þegar orðnar að höfuðverkum danskra bókmennta. Hafni fortæller er þar engin undantekning.