Inga Ravna Eira

Inga Ravna Eira

Inga Ravna Eira

Photographer
Michal Aase, Davvi Girji
Inga Ravna Eira: Gáhttára Iđit. Ljóðabók. Davvi Girji, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Bókin Gáhttára Iđit / Vokterens Morgen / The Guardian’s Dawn („Dögun gæslumannsins“, hefur ekki komið út á íslensku en er útgefin í norskri og enskri þýðingu í sömu útgáfu) er sannur fengur í orðsnilld sinni. Lestur hennar getur lokið upp óvæntri, upphafinni vídd með hrynjandi ljóðanna, endurtekningum og lýsingum auk ljósmyndanna, en allt þetta má upplifa sem eina heild.

Ég sé leifarnar

af fórnargjöfum

og velti fyrir mér

hver hafi skilið þær eftir

og hvenær

(bls. 34)

Bókin er sem skuggsjá hinna mörgu laga tvískiptrar tjáningar sem einkennir samíska ljóðlist og sönglínur jojksins. Hún skorar á lesandann að leggja við hlustir og skynja þann hjartslátt horfins tíma sem tilvera Samanna stendur fyrir – hreindýrasmölun, forðabúr náttúrunnar og lífsanda náttúruunnandans.

Bókin lýkur upp andlegum dyrum, ekki þess konar dyrum sem sjást með berum augum heldur þeim sem sleppa tilfinningum okkar lausum. Þegar ekki einu sinni frumbygginn man eða kann hlutina lengur stíga ljóðmælendurnir fram og biðla til hans að trúa á mátt hins andlega.

Stuðlun og hálfrím í ljóðunum freistar lesandans til að taka undir jojkið og hávær hróp hreindýrasmalans til smalahunds síns. Ljóðmælendurnir kynna gömul og hefðbundin samísk orð fyrir lesandanum með eðlilegum hætti.

Í sumum ljóðanna má nánast heyra garnirnar gaula í einfaldri hljóðsinfóníu, sem þó verður einnig flókin í nútíma sem krefst virkilegs styrks að lifa af í. Einnig má skilja ljóðin sem þakkarbænir fyrir þá matargjöf sem felst í náttúrunni og hreindýrunum.

Einfaldar línurnar hafa yfirþyrmandi áhrif með hljómfagurri hrynjandi, því inn á milli nær hin tónlistarlega tjáning nánast að yfirgnæfa boðskapinn í þessu meistaraverki Ingu Ravna Eira. Það er einmitt þessi tilfinning fyrir sjónrænum hljóðlíkingum sem skapar hina miklu nánd milli lesanda og ljóðverks.

Ljóðin feta slóð menningararfs Samanna og hefðbundinna gilda þeirra, allt frá fyrstu tíð til nútímans. Inntak bókarinnar gerir lesandanum ljóst hvernig lífsskilyrði Sama hafa breyst og hve dýrkeypt sú breyting hefur verið. Áður fyrr voru Samar hrakyrtir og réttindi þeirra fótum troðin, án möguleika til andmæla. Í seinni tíð hafa þeir risið upp, staðið saman gegn yfirgangi og krafist réttlætis.

Ég skapa jú

og móta

Ég segi jú frá

og jojka

Mér tekst það jú

og öðlast vald á því

Ég get það jú

Já, ég get það jú

já, get það 

(bls. 43)