Isabella Nilsson

Isabella Nilsson

Isabella Nilsson

Photographer
Isabella Nilsson
Isabella Nilsson: En bok för Ingen, esseyjusafn, Ellerströms, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Dag nokkurn er Isabella Nilsson að hlusta á útvarpið þegar hún heyrir frægan leikara þruma:

„Þetta er enginn draumur! Ég óttast að þetta sé ekki einu sinni sturlun! Því að alltof mikið hefur þegar …“

Og þar, mitt í  þessari  setningu, fer rafmagnið. Um leið hefst þrumugnýr fyrir utan. Þegar rafmagnið kemur aftur á eru orð leikarans á bak og burt. Nú má heyra konu tala um múltuberjasultu.

 

Einmitt svona er það að lesa texta Isabellu Nilsson. En bok för ingen (2022) („Bók fyrir engan“, ekki gefin út á íslensku) býður lesandanum inn og býður honum upp í dans og jafnvel þegar einhver grípur fram í fyrir manni, eða þegar eitthvað deyr, þá spretta nýjar hugsanir fram. Hér má finna öll veður og allar vindáttir svo að úr verður stórfenglegur dragsúgur.

 

Isabella Nilsson byggir bókina á spakmælaritinu „Hin kátu vísindi“ eftir Friedrich Nietzsche (1882) og myndar bæði og rýfur tengingar, ýmist út frá Nietzsche eða sjálfri sér. Manni finnst maður klár við lestur þessarar bókar, en um leið verður maður gagnrýnni á sjálfan sig og það sem maður taldi sig áður vita. Nilsson tekst á við hinar mörgu prófraunir esseyjuformsins og er svo sannarlega óhrædd við að láta reyna á mörk þess.

 

Hvað felst í því? Til dæmis að hún fer frjálslega með fyrirmynd sína – aðeins fyrirsagnirnar eru teknar úr bók Nietzsches, og að sjálfsögðu djörf nálgunin. Þannig getur allt orðið að viðfangsefni skarprar greiningar sem rituð er á leikandi léttan hátt. Þannig getur allt orðið að viðfangsefni skarprar greiningar sem rituð er á leikandi léttan hátt. Nilsson hefur sláandi næma tilfinningu fyrir tungumálinu og fullnýtir möguleika orðanna til að taka á sig nýjar merkingar. Hún skrifar um kristindóminn, sjálfhverfu, æskuvini, samvisku, uppruna rökfræðinnar, ásækni okkar í þjáningu, málefni hungursneyðar og um forrétti – og kemur lesandanum á óvart með því að umfaðma ávallt þau viðfangsefni sem reyna að skreppa undan.

Isabella Nilsson er fædd árið 1989 i Skövde og gaf út frumraun sína, unglingaskáldsöguna Verklighetsprojektet („Raunveruleikaverkefnið“, ekki gefin út á íslensku), árið 2011. Nonsensprinsessans dagbok (2018) („Dagbók vitleysuprinsessunnar“, óþýdd) var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019. Í þessari nýjustu bók sinni, sem er í senn kímin og óróleg,  býður  Nilsson  okkur með sér í nýja könnunarleiðangra, til dæmis þegar hún segist hafa tekið lestina til Parísar þrisvar sinnum en aldrei getað komið í aðra borg en þá sem hún hefur lesið um. Í skrifum sínum sýnir hún það og sannar með fáguðu handbragði að það er áhugaverðara að deila með sjálfum sér en að margfalda með sjálfum sér. Með En bok för ingen markar Isabella Nilsson sér stöðu á meðal helstu rithöfunda Svíþjóðar af yngri kynslóðinni. Hún hefur unnið meitlað verk þar sem hver einasta setning virðist hafa verið vegin á gullvog.