Jakob Martin Strid

Ljósmyndari
Morten Holtum
Jakob Martin Strid: Den fantastiske bus. Myndabók, Gyldendal, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Með sínum 18.500 hestöflum ekur rútan stórfenglega, Den fantastiske bus („Rútan rosalega”, hefur ekki verið þýdd á íslensku), beint inn í hjörtu lesenda með magnaðri frásögn um mikilvægi hugmyndaflugsins og vináttunnar. Jakob Martin Strid varði fimmtán árum í þetta 2,5 kílóa þunga og 40 sentimetra breiða meistaraverk. Sagan fjallar um Taku, lítinn gráan bangsastrák. Ásamt fleiri dýrum sem halda til niðri við höfnina í bænum Anhstarr City reynir hann að bjarga Timo vini sínum úr vanda. Timo er orðinn veikur vegna mengunarinnar í bænum og í þeirri von að hin sérstæða saffranlilja fái læknað hann ákveða dýrin að byggja risastóra rútu og aka til ævintýralands að nafni Balanka, þar sem vaxa ósköpin öll af saffranliljum. 

 

Það er hreinlega töfrum líkast að fletta í gegnum myndirnar af rútunni þegar félögunum hefur loksins tekist að koma henni á loft. Skyndilega virðist tíminn standa í stað í þessari annars ólgandi þeysireið þar sem frásögnin svífur ofar norðurljósum, Norðurpólnum, túndrunni og Hinsta landinu, þar sem eru yfirgefin kjarnorkuver og ógeðfelldur kolkrabbaeinræðisherra sem þvingar börn til að láta af hendi afmælisgjafir sínar. En svo gerist dálítið annað. Á hverri opnunni eftir aðra svífur rútan svo hátt upp í himinblámann að hún hverfur að lokum alveg út af myndunum og í hennar stað sjáum við nærmynd af týndri perluplötu og lausum perlum, sem virtust áður vera gervitungl í hinum gríðarstóra geimi. Því næst stefnir rútan lóðbeint að andliti lesandans á ný. Þessi frásagnarháttur er áræðinn, óvæntur og til marks um að hérna er stórfenglegt meistaraverk á ferð. Hér eru engar málamiðlanir gerðar og Strid býður okkur að stíga inn í nýjan veruleika sem getur bæði framkallað hlátur og stöku tár í augnkrókum.  

 

Hin eiginlega aðalpersóna verksins er rútan. Við fylgjumst með henni skrölta og brölta af stað þangað til hún tekst að lokum á loft. Fyrst er það jörðin, því næst himinninn. Þverskurðarmyndir af rútunni gera lesandanum kleift að fylgjast með persónunum drekka te úr samóvarnum, lesa upphátt úr bókum og leggja kapal. Stemningin er hlý og kyrrlát og fyrir fullorðinn lesanda verður hún nánast nostalgísk; minnir á æskudaga þegar maður sat sjálfur í aftursæti bíls og lét sig dreyma opnum augum um nýja heima. 

 

Jakob Martin Strid dregur aldrei dul á það hvaðan hann fær innblástur. Í þessari bók vísar hann með skýrum hætti í verk japanska teiknimyndameistarans Hayao Miyazaki og sérstaklega í myndina Howl‘s Moving Castle. Að hætti Strid er undirtónninn auk þess anarkískur, húmanískur og andkapítalískur. Það stendur til að rífa hin heimasmíðuðu hús hópsins og byggja eitthvað nýtt, en samtakamátturinn færir félögunum sigur að lokum. „Nú búum við í Balanka og allt er gott,“ eins og segir tvisvar sinnum í lokin. Og svo geta þau kveikt sér í stórri jónu! Flugferð án fargjalds er í höfn. Hér gengur ferðalagið bara út á að stíga um borð í rútuna og koma með í öll þau stórfenglegu ævintýri sem Strid lýsir af nákvæmni og næmni. Strid er engum líkur. Hann hefur ítrekað sýnt það og sannað að hann er einstakur höfundur og – ekki síst með því meistaraverki sem hér er til umfjöllunar – að hann hefur sinn eigin stíl og kann þá list að veita öllum, bæði börnum og fullorðnum, von um að til séu nýjar leiðir til að sjá og skynja heiminn. Áhrifin eru bæði mikilfengleg og óumdeilanleg. Leyfum veröld Strid að taka yfir hluta af okkar dauflegu heimssýn. Því fyrr því betra. Það er nefnilega aldrei að vita hvenær rútan leggur næst af stað.