Joanna Rubin Dranger

Joanna Rubin Dranger

Joanna Rubin Dranger

Photographer
Anna Widoff
Joanna Rubin Dranger: Ihågkom oss till liv, myndasaga, Albert Bonniers Förlag, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Þegar Joanna Rubin Dranger var rétt komin af unglingsaldri framdi Susanne, ástkær móðursystir hennar, sjálfsmorð. Í bókinni Ihågkom oss till liv („Mundu okkur til lífs“, ekki gefin út á íslensku) – verki sem fer þvert á bókmenntagreinar og er umfangsmikið og víðfeðmt, ekki bara hvað snertir þyngd og blaðsíðufjölda – lýsir Rubin Dranger því í texta og myndum hvernig hún byrjar, mörgum árum síðar, að rekja þá þræði sem leiddu til sjálfsvígs móðursysturinnar og hvernig hún rýfur þá þögn og þær endurskrifanir veruleikans sem réðu ríkjum í uppvexti hennar, þar sem ættingjar voru einfaldlega sagðir „horfnir“ – eða alls ekki nefndir á nafn. Hún fylgir þráðunum að þeim gyðingaofsóknum sem áttu sér stað í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar og í styrjöldinni sjálfri í Þýskalandi, Póllandi, Litháen og Rússlandi – en einnig að gyðingahatri og undirlægjuhætti í löndum Skandinavíu, og þeim eyðileggingaráhrifum sem þar hlutust af tregðunni til að rétta fram hjálparhönd. Þræðirnir liggja beint inn í myrkrið, að útrýmingarbúðum, morðum og ofbeldi. En einnig að gleðinni sem sprettur af því að hitta ættingja sem komust lífs af í Bandaríkjunum og Ísrael. Rubin Dranger sýnir í myndum og máli hvernig hún stendur frammi fyrir sársaukafullum, nýjum og óvæntum spurningum. Sumum tekst henni að svara, öðrum ekki. Einn af styrkleikum bókarinnar felst í því að lesandinn fái einnig að upplifa og velta fyrir sér þessum flóknu eyðum í frásögninni.

 

Eftir því sem spurningarnar hlaðast upp finnur Joanna Rubin Dranger að hún verður að komast að því hvað hin myrtu hétu og hvernig þau lifðu. Það að skrifa og teikna sögu hinna horfnu verður að andspyrnuaðgerð sem nálgast hugsunarhátt töfranna: nasistarnir máðu út þetta fólk og allar minningar þess, en Rubin Dranger særir það fram úr gleymskunnar dái og sýnir hvernig það lifði, lifði lífi sem tekið var frá því.

 

Fyrst og fremst gengur verkefnið út á að hlýða því sem segir í gyðingabæn nokkurri, um að lífga hin látnu við með því að muna þau. Þegar Rubin Dranger kemst að því að lítill drengur í ættinni var myrtur og að enginn man lengur nafn hans tekur hún lesandann með sér í örvæntingarfulla leit að svörum. Skyndilega skiptir það hana öllu máli að komast að nafni drengsins, og þegar hún veit það loksins upplifa bæði hún og lesandinn hve mikilvægt það er að muna – hvernig það getur teygt sig aftur í tímann, gegnum áratugina og komið hlutum í lag. Þannig verður bókin nokkurs konar „meta-verkefni“: með því að gefa okkur nöfn hinna myrtu og teikna upp af kostgæfni ljósmyndir þeirra og portrettmyndir er hægt að endurskapa þau eftir dauðann. Ekki er unnt að breyta sögunni eftir á, en hin látnu öðlast líf þegar við minnumst þeirra.

 

Stíll bókarinnar er beinskeyttur og einfaldur, bæði hvað varðar texta og myndir, en einfaldar þó aldrei neitt. Sagan beinir sjónum okkar beint inn í myrkrið, bæði myrkur mannkynssögunnar og það myrkur sem Dranger uppgötvar fljótlega innst í eigin sálarfylgsnum. Þannig lýsir Rubin Dranger ekki aðeins sögu ættar sinnar, heldur einnig hinu sameiginlega áfalli sem dunið hefur á ættinni – og hvernig áhrif þess vara áfram, kynslóð fram af kynslóð, einnig í henni sjálfri.

 

I Ihågkom oss til liv er texta og myndum blandað saman með hugvitsamlegum hætti þannig að hvort formið um sig gerir hitt enn sterkara. Áhrifin verða nánast yfirþyrmandi. Ljósmyndir og önnur skjöl birtast í bland við áhrifamiklar teikningar eftir Dranger sjálfa, í frásögn sem sögð er á einstakan hátt. Þannig verður bókin að þeirri heimildaskáldsögu sem hún er kölluð á kápunni, en einnig að einhverju miklu meira: myndasögu, sögulegri frásögn, nokkurs konar dagbók höfundar og sjálfsævisögu. Hún verður líka að þolraun, bæði fyrir höfundinn og lesandann. Verkið færir atburðina svo nærri manni að ekki verður komist undan þeim.

Joanna Rubin Dranger, fædd 1970, hefur vakið athygli fyrir fjölda myndasagna síðan hún sendi frá sér frumraun sína 1999. Oft blandar hún kjarnyrtri kímni við tilvistarlegar spurningar og varpar ítrekað ljósi á niðurnjörvuð kynjahlutverk samtímans. Í dag gegnir hún prófessorsstöðu við Konstfack í Stokkhólmi. Það að bókin skuli spretta fram andspænis auknu og endurnýjuðu gyðinga- og útlendingahatri í Evrópu fer hvorki framhjá lesandanum né Rubin Dranger sjálfri. Hún hörfar ekki undan þeirri mannkynssögu sem orðin er. En heldur ekki þeirri sem nú vindur fram. Ihågkom oss till liv er stílfræðilega heildstætt verk og huguð heimild um samtímann. Túlkun okkar á bókinni tengist að ýmsu leyti mörgum af örlagaatriðum Evrópu í samtímanum.