Johanna Boholm

Johanna Boholm
Ljósmyndari
Martin Nyberg
Jag är Ellen. Prósalýrísk frásögn, Schildts & Söderströms, 2016.

Í hverjum einstaklingi slær taktur tímans, líkt og í fuglsvængjum á flugi.

Úr þeirri tilfinningu, eins konar tímalausum skilningi, skapar Johanna Boholm prósalýrísku frásögnina Jag är Ellen, sem er framlag Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Johanna Boholm er fædd 1976 og býr í Jomala á Álandseyjum. Frumraun hennar, hið sérstæða prósaverk Bygdebok (2013), hlaut frábærar viðtökur og tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Boholm hefur óvenjulegan stíl og henni er lagið að skapa spennuþrungið andrúmsloft með fáum orðum. Ekkert segir sig sjálft í þessum textum, þar sem blæbrigði orðanna eru atburðarásinni yfirsterkari og hið dularfulla og tvíræða gerir kröfur til lesandans, en býður honum jafnframt til samveru. Hafi lesandinn einu sinni gert sig heimakominn í þessum texta vill hann ekki yfirgefa hann.

Aðalpersónur Jag är Ellen eru tvær; Jóhanna úr samtímanum og Ellen úr fortíðinni. Þær spegla sig hvor í annarri og eiga samtal yfir andleg landamæri meðan þær laðast að frummyndum undir yfirborði jarðar, sem táknaðar eru af upphafi alls; brothættu eggi. Innra með Jóhönnu hvín tíminn eins og þrumandi söngur. Hún man eftir flótta, en undan hverju var hann? Hún sækir námskeið í ættfræðirannsóknum í tilraun til að finna fjarlægri reynslu farveg. „Þú átt að skrifa hlykkjóttan veg út úr öllu,“ segir leiðbeinandinn á námskeiðinu.

Hér er fyrst og fremst sagt frá breytingum: nútíð og þátíð renna saman í eitt, örlög fólks fléttast saman, konurnar öðlast fuglslegt yfirbragð á meðan eina karlkyns persóna frásagnarinnar, Boholms-maðurinn, liggur örendur í mosanum og rís upp að nýju líkt og fyrir kraftaverk. Jóhanna og Ellen takast á flug og dansa á þökunum eins og fígúrur á málverki eftir Chagall: „Við losnum frá leirnum. Við losnum frá ökrum, skógi og myllu, frá gamalli mold, eggjaskurn, leifum af þrá, raka og rifnum gluggatjöldum.“ 

En hinir hlutbundnu þættir frásagnarinnar eru aðeins hverful hugboð í sefjandi vef, í sköpunarsögu sem í býr mikil fegurð orða. Jag är Elleneftir Johönnu Boholm má lesa sem ljóðræna opinberun þar sem sömu tákn og myndhverfingar koma endurtekið fyrir – silkihanski, hvinur í hjarta, kliður – og taka á sig mynd eins og stef í sónötu.

Orðin fylgja flugi fugla, vegi sem liggur inn í manneskjuna og opnar á nýjan skilning, drauma og tilfærslur í tíma og rúmi.