Juaaka Lyberth og Maja-Lisa Kehlet (myndskr.)

Juaaka Lyberth & Maja-Lisa Kehlet
Photographer
Juaaka Lyberth & Maja-Lisa Kehlet
Juaaka Lyberth og Maja-Lisa Kehlet (myndskr.): Orpilissat nunarsuarmi kusanarnersaat. Myndabók, Milik Publishing, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Orpilissat nunarsuarmi kusanarnersaat („Heimsins fegursta jólatré“, ekki þýdd á íslensku) eftir Juaaka Lyberth er spennandi jólaævintýri fyrir alla fjölskylduna. Líkt og í öllum sígildum jólasögum óttast persónurnar að jólin komi ekki fyrir alvöru. Sögusviðið er Uummannaq á Grænlandi. Bæjarbúar eru örvæntingarfullir og daprir vegna þess að nýlenduherrann Hammeken hefur viljandi látið undir höfuð leggjast að panta jólatré fyrir bæinn. Drengurinn Kunuk vill gera eitthvað til að bjarga jólunum og þiggur til þess hjálp jólaálfsins Litlapotts. Kunuk er sá eini í sinni fjölskyldu sem trúir á jólaálfana og jólasveininn og reynir að sannfæra aðra fjölskyldumeðlimi um tilvist þeirra. Einnig koma til sögunnar óhugnanleg tröll sem fyrirlíta jólin. Tröllin vilja allt til vinna að spilla jólunum og ræna þess vegna hinum litlu, saklausu jólaálfum sem eru á leiðinni að sækja nágrannaálfa sína.

Við ferðumst aftur í tímann, allt til nýlenduáranna á Grænlandi, þegar enn voru send símskeyti – og þar sem einnig var að finna fjölda af álfum og tröllum sem gerðu hvert öðru lífið leitt eftir fremsta megni. Sagan hefur allt sem þarf til að vekja og viðhalda forvitni ungra lesenda. Hún er skemmtileg og notaleg – og líka átakamikil á köflum. Tröllin og álfarnir bera skondin en jafnframt kunnugleg nöfn sem endurspegla persónuleika þeirra – nöfn á borð við Vísifingurína, Þumalfingurhnoðri, Langimann, Hringumkring, Litlipottur, Stóri-Hamar, Prumpurikki og Skrækgól.

Maja-Lisa Kehlet er ný stjarna myndlistar á Grænlandi. Myndskreytingar hennar við söguna eru glæsilegar og lifandi. Í Orpilissat nunarsuarmi kusanarnersaat koma frásögn og myndskreytingar saman í fallegri jólasögu þar sem áherslan er ekki á gjafir og neyslu – þvert á móti er jólagleðinni gert hæst undir höfði.

Juaaka Lyberth er fæddur 1952 og gaf út sína fyrstu bók árið 2012, skáldsöguna Naleqqusseruttortut (dönsk þýðing Godt i vej, Milik Publishing 2014, þýðandi Lars Wind). Sú bók hlaut tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2014. Skáldsagan fjallar um það þegar efnilegustu einstaklingar hverrar kynslóðar Grænlendinga voru sendir til náms í Danmörku, svo þeir gætu síðar snúið heim og gegnt því hlutverki í samfélaginu sem danska yfirstéttin ætlaði þeim. Höfundurinn lýsir vel rótleysinu sem fylgir því að alast upp í samfélagi þar sem aðrir hafa ákveðið hvaða möguleikar manni bjóðast og hvaða leið skuli feta í lífinu.