Karen Anne Buljo og Inga-Wiktoria Påve (myndskr.)

Karen Anne Buljo & Inga-Wiktoria Påve
Photographer
Marie Louise Somby & Inga-Wiktoria Påve
Karen Anne Buljo og Inga-Wiktoria Påve (myndskr.): Guovssu guovssahasat. Myndabók, Davvi Girji, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Í bókinni Guovssu guovssahasat („Norðurljósin hans Guovssu“, ekki þýdd á íslensku) endursegir Karen Anne Buljo samíska þjóðsögu af því hvernig hin varasömu, litlausu norðurljós fengu litina sína. Jafnframt sækir bókin í hina munnlegu frásagnarhefð Sama. Samar hafa alltaf notað sögur til að vara börnin við því að ögra náttúruöflunum. Hættur leynast víða og í samfélagi Sama var börnum snemma kennt að hugsa sjálfstætt.

Þessa sér stað í frásögninni þegar móðir segir börnum sínum hve hættulegt sé að ögra og stríða ljósum sem ekki hafa neina liti. Börnin fá að heyra um litasamkeppnina milli ljósgjafa náttúrunnar: bæði miðnætursólin og regnboginn fengu litina sína. Norðurljósin sátu uppi litlaus og voru eftir það í stöðugri leit að litum. Móðirin reynir að koma börnunum í skilning um að þau þurfi að vera á verði, því norðurljósin geti verið hættuleg.

Til að verja sig gegn hinum mörgu goðsagnakenndu hættum fá börnin verndargripi úr silfri, og móðirin biður þau að sýna gripina ef ókunnugir skyldu koma í heimsókn meðan foreldrarnir eru úti að sinna hreindýrahjörðinni. Börnin fá ströng fyrirmæli um að halda sig í tjaldinu en þau láta lokkast af öðrum börnum og fara út. Meðan eldri börnin eru úti við leik kemur litli bróðirinn Guovssu út og ögrar Norðurljósunum og stríðir þeim með fornum samískum rímorðaleik. Norðurljósin bregðast við með því að taka litla bróður. Sér til skelfingar sjá eldri börnin hvað hefur gerst og reyna að ná bróður sínum til baka, en sogast sjálf inn í hina kraftmiklu birtu norðurljósanna.

Þessi sýn mætir foreldrunum þegar þau koma heim og þau biðja börnin að láta frá sér hin litríku silkisjöl sín og silfurgripina. Þegar þau gera það sleppa norðurljósin takinu og börnin komast niður til foreldra sinna.

Áður fyrr voru þjóðsögur hinnar samísku frásagnarhefðar notaðar í uppeldisskyni í stað boða og banna. Með þeim var börnunum leiðbeint. Sagan af því hvernig norðurljósin fengu litina sína er gott dæmi um sögu af þessu tagi. Sagt var að ekki mætti reita norðurljósin til reiði, því þau gætu brugðist illa við og tekið börn til sín. Allir áttu að sýna norðurljósunum og öðrum fyrirbærum himinsins virðingu. Þessi þjóðtrú lifir enn í dag.

Höfundur bókarinnar hefur skrifað spennandi sögu um það hvernig norðurljósin fengu liti sína. Litríkar myndskreytingar Ingu-Wiktoriu Påve eiga þátt í að gæða frásögnina lífi og spennu.

Mikilvægt er að gera samíska frásagnarhefð sýnilega með þessum hætti. Höfundurinn hefur skrifað bók upp úr þjóðsögunni um norðurljósin og gert hana þannig aðgengilega börnum. Bókin hefur einnig skírskotun til nútímans, sé litið til áhuga nútímafólks um allan heim á norðurljósunum.

Bókin er létt aflestrar og auðskiljanleg börnum. Myndskreytingar Ingu-Wiktoru Påve eru natúralískar og tjáningarríkar. Litavalið er vel heppnað og eykur á dulúð frásagnarinnar.