Kerron sinulle kaiken (Open Up to Me) - Finnland

Open up to me (Finland)

Ágrip

Maarit er falleg, gáfuð og kynþokkafull kona – sem var áður karlmaður. Afleiðing kynskiptiaðgerðarinnar er að hún hefur misst sambandið við dótturina sem hún feðraði og því lífi sem hún átti. Þegar hún hittir og verður ástfangin af Sami, knattspyrnuþjálfara, kennara og fjölskylduföður, finnst henni loksins sem hún „passi“ einhvers staðar. En þetta verður fljótt þolraun fyrir Sami. Í heimi sem álítur Maarit furðudýr, er Sami þvingaður til að takast á við eigin djúpstæða fordóma. En Maarit þarf, með eða án Sami, að taka skref inn í nýjan heim þar sem hún ein getur ákveðið hvar hún tilheyrir.

Rökstuðningur dómnefndar

Flestir telja sig vera umburðarlynda. Það er einungis í návígi við fólk sem er öðruvísi en við að raunverulegt eðli okkar skín í gegn. Á þennan hátt er Kerron sinulle kaiken eftir Simo Halinen algjörlega mannlegt og vel útfært próf í umburðarlyndi. Aðalpersónan, Mauri, er kona sem fædd er í karlmannslíkama, en orðin Maarit eftir kynleiðréttingaraðgerð. Maarit, sem þarf að takast á við þrýsting frá þjóðfélaginu, er hin raunverulega hetja sögunnar þar sem engan augljósan óvin er að finna. Halinen, sem bæði skrifar og leikstýrir myndinni, sýnir mikinn skilning á mannlegu eðli. Nákvæm frásögn og afburða leikur fullkomna svo sterka heild.

Um myndina

Simon Halinen fékk hugmyndina að myndinni á meðan hann fékk sér blund síðdegis á laugardegi. Hann dreymdi hreingerningakonu, sem er ein á skrifstofu sálfræðings. Síminn hringir, hún svarar og í símanum er maður í uppnámi. Hreingerningarkonan læst vera sálfræðingurinn og býðst til að aðstoða manninn. Þegar hann hugsaði um drauminn fannst leikstjóranum að einungis mjög einmana kona gæti hagað sér svona undarlega, eða kona sem ber þunga byrði sjálf. Nokkrum vikum seinna datt honum í hug að hreingerningarkonan gæti verið transkona, og fannst hann þá vera kominn með hugmynd að óvenjulegri kvikmynd. Halinen ákvað engu að síður að gera kynferðislega sjálfsmynd ekki að meginefni myndarinnar heldur „hvernig hægt er að takast á við lífið þegar viðkomandi felur tilfinningar sínar fyrir samferðamönnum sínum“.

Kvikmynd Susanne Bier Elsker dig for evigt og persónurnar í myndinni veittu leikstjóranum innblástur. Leea Klemola var fengin til að leika transkonuna Maarit vegna þess að „hún færði myndinni svolítið hættulega vídd.“

Myndin var frumsýnd í Finnlandi þann 8. mars 2012 og fékk mjög góða gagnrýni. Hún hlaut Hand of Humanism heiðursverðlaunin á Viitasaari kvikmyndavikunni og og var markaðsfrumsýnd á European Film Market í Berlín 2013.

Leikstjóri-Handritshöfundur, Simo Halinen

Simo Halinen sem fæddur er árið 1963 er handritshöfundur og leikstjóri kvikmynda og sjónvarpsþátta. Meðal sjónvarpsverkefna eru sjónvarpsmyndin Minerva (1997), sjónvarpsþáttaröðin The Girl with a Pig Tale (2004) og svört kómedía í þremur hlutum, Golden Retriever (2007). Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd var Cyclomania(2001) Kerronen sinulle kaiken er önnur kvikmynd hans í fullri lengd.

Halinen hefur einnig skrifað tvær skáldsögur: Idänsydänsimpukka (2004) og Lemmenomenia (2008).

Framleiðandi, Liisa Penttilä

Liisa Penttilä-Askainen stofnaði eigin framleiðslufyrirtæki, Edith Film, árið 2001 í samstarfi við Zentropa. Hún var meðframleiðandi Dogville eftir Lars von Trier og aðstoðarframleiðandi Manderlay. Hún framleiddi Väärät juuret eftir Saara Saarela sem var tilnefnd til Jussi verðlaunanna fyrir besta leikara. Ári seinna framleiddi Penttilä-Askainen sjónvarpsmyndina  
Vaktmästaren  eftir Jan Forsström; hún var meðframleiðandi  Råtta Booris parantaa tapansateiknimyndaraðar fyrir börn eftir Leena Jääskelainen og Kaisa Penttilä, og einnig þýsku myndarinnar Summer Window eftir Hendrik Handloegten.

Síðan starfaði hún með Aku Louhimies við mynd hans VUOSAARI  sem hlaut  CICAE Art Cinema verðlaunin á Festroia kvikmyndahátíðinni árið 2012.

Eftir að hafa unnið með Simon Halinen við sjónvarpsþáttaröð hans Golden Retriever (2007), framleiddi Penttilä kvikmynd hans Kerron sinulle kaiken, sem frumsýnd var í Finnlandi árið 2013. Væntanlegar myndir frá henni eru m.a. Boy Upside Down eftir Juha Lehtola með Kari Hietalahti, Maria Heiskanen og Tommi Korpela í aðalhlutverkum og spennumynd Louhimie, Ultimate Fight.

Penttilä-Askainen var tilnefnd „Producer on the Move“ í Cannes 2012.

Helstu framleiðsluupplýsingar

Upprunalegur titill: Kerron sinulle kaiken

Leikstjóri: Simo Halinen

Handritshöfundur: Simo Halinen

Framleiðandi: Liisa Penttilä

Aðalhlutverk: Leea Klemola, Peter Franzén, Riia Kataja, Emmi Nivala

Framleiðslufyrirtæki: Edith Film

Lengd: 95 mín

Dreifing innanlands: Future Film Distribution

Alþjóðleg dreifing: The Yellow Affair

Fulltrúar í dómnefnd

Outi Heiskanen, Harri Römpötti, Johanna Grønqvist