Kirsten Hammann

Kirsten Hammann

Kirsten Hammann

Photographer
Sara Galbiati
Kirsten Hammann: Georg-komplekset, skáldsaga, Gyldendal, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Þetta er Georg. Þú munt kannast við hann, því hann er birtingarmynd hinnar róttæku einstaklingshyggju nútímans. Hann er líka aðalpersónan í beittri og vel skrifaðri skáldsögu Kirsten Hammann, hinni ískyggilega skemmtilegu Georg-komplekset („Georgs-komplexinn“, ekki útgefin á íslensku).

 

Georg hefur alltaf átt greiðan aðgang að lífsins gæðum, en á miðjum aldri upplifir hann skyndilegt brottfall af hátindi velgengninnar. Georg er rithöfundur sem hefur staðnað. „Veslings Georg, nú er loks úti um hann. Hann er orðinn ósýnilegur.“

 

Georg-komplekset er skáldsaga um hina illþefjandi vinda öfundarinnar og um samviskuna; skáldsaga sem sýnir hina ölvandi sjálfsást er einkennir nútímann, og timburmennina sem gera vart við sig þegar þránni eftir sýnileika og viðurkenningu er ekki lengur svalað. En auk þess að vera hatrömm háðsádeila á samtímann afhjúpar verkið einnig þá frumhvöt manneskjunnar að vera sá miðpunktur sem allt ljós heimsins beinist að. Þannig gæti eftirfarandi vers úr sálminum „Leiður á heimi, lystur til himins“ („Far verden, far vel“, 1681) eftir danska sálmaskáldið Thomas Kingo verið einkunnarorð fyrir skáldsögu Hammann: „Hvers vert er það skrúð/ sem veröldin býst er hún helzt þykist prúð?/ allt skuggar á flökti, allt glampandi gler,/ allt glitrandi vindbólur, hriktandi ker,/ allt einungis holklaki, hrúður og prjál,/ tómt hégómatál, tómt hégómatál!“ (Ísl. þýð. Jón Helgason, Úr landsuðri og fleiri kvæði, útg. Bjartur 1999). Georg-komplekset er skáldmælt og miskunnarlaust erindi Kirstenar Hammann um það hvernig innantómur hégómi getur breitt yfir skort á lífsfyllingu á því herrans ári 2022.

 

Og Hammann lætur Georg hætta sér út á þunnan ís. Það er nefnilega ekki nóg með að hann þjáist af ritstíflu, heldur er konan hans – guð sé oss næstur – líka byrjuð að skrifa. Og horfur eru á að úr verði metsölubók. Það. Má. Bara. Ekki. Gerast. Meðan Georg grætur vesældartárum yfir þeirri árás sem felst í ritfærni eiginkonunnar brýtur hann heilann um leiðir til að endurheimta sína fyrri stöðu í stigveldinu, og gerir sérlega vafasama og siðspillta áætlun: Til að komast yfir sálarkreppuna verður hann að fórna konunni sinni, eða í það minnsta handritinu hennar. Hammann sýnir okkur að fórnir eru ekki bara fyrirbæri aftan úr grárri forneskju, heldur geta rökfærslur nútímans líka minnt á þær. Til að ná stjórn á aðstæðum gerir Georg gagnárás: Hann verður að skrifa eitthvað stórfenglegt, eitthvað áhrifamikið, glæpasögu sem byggir á sannri frásögn af ofbeldi karla gegn konum.

 

Kirsten Hammann varpar afar gagnrýnu ljósi á hinar siðferðilegu flækjur sem hljótast af þorsta okkar eftir lýsingum á kvenhatri úr raunveruleikanum. Hve langt erum við reiðubúin að ganga til að láta skemmta okkur? Hér prófar Hammann lesendur sína. Hvað um fjöldamorðingja með fótablæti sem geymir afskorinn fót í frysti? Er það nóg? Já, þetta virkar fyrir Georg – honum virðast pælingar um mannlega harmleiki vera málið; slíkt hlýtur að tala til lesenda hans. Kaflar úr sannri glæpasögu Georgs fléttast inn og út úr lýsingu Kirstenar Hammann á honum, og líkt og Georg hefur sjálfur spáð fyrir um er útkoman áhrifamikil, heillandi og spennandi lesning. Þetta er djöfullega hrollvekjandi og fágað bragð af hálfu Hammann: að svipta fyrst grímunni af persónu rithöfundarins sem nokkurs konar líkræningja áreiðanleikans, og því næst að afhjúpa lesandann sem ótíndan, ákafan gluggagægi. Báðir virðast þeir jafnkaldrifjaðir.

 

Kirsten Hammann hefur gríðarmikla hæfileika sem hér birtast meðal annars í leiftrandi háðsádeilu. Hún beinir athygli okkar að sárum punktum og beitir kímninni ekki til að setja plástur á þá, heldur til að bíta fast. Hún hlífir engum.

 

Með því að láta Georg herma eftir tiltekinni bókmenntagrein, í viðleitni til þess að verða þekktur sem hann sjálfur, sýnir hún tilhneigingu samtímans til að villast á eftiröpun og frumleika.

 

Með Georg-komplekset gefur hún okkur færi á að eiga samtal við okkur sjálf um þau öfl sem takast á innra með okkur og í því samfélagi sem við höfum skapað. Og hún sýnir okkur að þráin eftir velgengni, mannleg heimska og eltingarleikurinn við auðmagn frægðarinnnar, sem Honoré de Balzac lýsti í gamanleik sínum þegar á 19. öld, eru fyrirbæri sem enn lifa góðu lífi í norrænu nútímasamfélagi.