Kristín Eiríksdóttir

Kristín Eiríksdóttir

Kristín Eiríksdóttir 

Photographer
Photo Credit: Sigtryggur Ari Jóhannsson
Kristín Eiríksdóttir: Tól. Skáldsaga, Forlagið, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur:

Skáldskapurinn er sannari en sannleikurinn 

 

Í þessari skáldsögunni eru fjórar aðalpersónur, en vægi þeirra er mismunandi. Sögumaður í fyrstu sögunni er kvikmyndagerðarkonan Villa sem talar í fyrstu persónu og tekur þannig stöðu höfundar í upphafi þó hún eigi ekkert skylt við eiginlegan höfund verksins. Villa segir sögu Dimitri eða Dimma að mestu leyti um leið og sína. Aðrar sögur eru skrifaðar af þriðju persónu sem þekkir persónur verksins, víkur oft að sögu Dimitri/Dimma og segir sögu Ninju, vinkonu Villu, auk Jóns Loga, barnsföður hennar. 

 

Þessar fjórar grunnsögur í bókinni tengjast allar gegnum Dimitri/Dimma. Frásögninni er beitt eins og verkfæri eða tóli til þess að búa sannleikann til og afbyggja hann á víxl. Lífið hefur leikið Dimitri/Dimma hart og lesandinn fær smám saman að vita að sakaskrá hans er ekki fögur. Jón Logi og Ninja vita það bæði en Villa, sem er að búa til kvikmynd um Dimitri/Dimma, reynir að eyða þeirra sögu og skapa aðra fegurri og betri, sögu sem hún þekkir og finnst sönn en öðrum þykir ótrúverðug. Ninja er að vinna með henni og þær takast á um þetta. Villa vill að skáldskapur hennar sé sannleikur. Þannig skilur hún viðfangsefni sitt vegna þess að hún hefur annað sjónarhorn en hinir. 

 

Villa og Dimitri/Dimmi tengjast á unglingsárum og þá voru þau að sjálfsögðu önnur en þau eru orðin á frásagnartímanum. Villa á dreng sem hún vill ekki bregðast, en gerir það samt að miklu leyti. Að einhverju leyti virðist hún ætla kvikmyndinni að verja bernsku þeirra Dimitri/Dimma, og jafnframt sakleysið sem bernskan geymir. Dimitri/Dimmi er á sögutímanum orðinn hvalveiðimaður og hórmangari og bæði glíma þau við fíknivanda sem hefur breytt þeim og rænt þeim persónuleika sem Villu finnst að eitt sinn hafi verið þeirra og „sannur“ á sinn hátt. 

 

Í upphafi sögunnar er Villa stödd á kvikmyndaráðstefnu í Svíþjóð til þess að tala um kvikmynd sína, þar verður árekstur milli skáldskapar og upplýsinga og í þeim árekstri hefst skáldsagan Tól. Smám saman verður ljóst að saga allra aðalpersónanna snýst um baráttu við að halda ævi sinni í línulegri frásögn sem samfélaginu geðjast að. Sú línulaga frásögn er alls ekki „sannari“ en hinn tilfinningatengdi skáldskapur Villu, sem Kristín Eiríksdóttir hefur sett saman og tengt við söguna af Jóni Loga og Ninju. Hvaðan kom eiginlega sú hugmynd að mannlífið ætti að vera rökrétt og línulaga?  

 

Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur er glæsilega fléttuð frásögn sem ristir djúpt í greiningum sínum á mannlífinu. Jafnframt ögrar verkið vinsælum hugmyndum um rétthugsun, skáldskap og málfrelsi. 

 

Skáldsagan Tól kom út árið 2022 og var tilnefnd til Fjöruverðlauna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið eftir.