Laura Lähteenmäki
Rökstuðningur
Myy, Viivi, Heta, Aada og Camilla eru fimm stelpur sem saman mynda náinn vinkvennahóp. Þegar fjórða bekk er um það bil að ljúka finnur Myy þó að eitthvað hefur breyst. Henni finnst hún ekki lengur tilheyra hópnum. Samræður vinkvenna hennar virðast hljóðna þegar hún nálgast. Þegar stelpurnar faðmast allar í hóp er ekki lengur pláss fyrir Myy.
Laske salaa kymmeneen („Teldu upp að tíu í laumi“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) er frásögn um vináttu milli stúlkna og þær breytingar sem fylgja auknum þroska og sem erfitt getur reynst að sætta sig við. Myy er skilin útundan og líður eins og eitthvað sé að henni fyrst hún vill enn leika sér og er lítið spennt fyrir förðun og því að fullorðnast. Þegar samskiptin við vinkonurnar verða flókin kynnist hún strák í hverfinu sem gefur henni kærkomið tækifæri til að gleyma sér í veröld leiksins. Myy og Lassi hlaupa út í nærliggjandi skóg og sökkva sér í leik sem lætur þau gleyma stað og stund.
Listilegar lýsingarnar á leikjum þeirra láta lesandann jafnvel velta því fyrir sér hvort hinn nýi vinur Myy sé ef til vill líka afurð ímyndunaraflsins. Í hita leiksins spyr hún hvorki um símanúmer nýja vinarins né fullt nafn hans. Bókin er lofsöngur til frjáls leiks og þýðingar hans í lífi barns. Auk þess að veita gleði og skemmtun styður leikur við þroska barna og gefur þeim færi á að greiða úr tilfinningum sínum, líka þeim sem eru ruglingslegar og illskiljanlegar. Í leiknum getur barnið sjálft sett reglurnar. Myy finnst þetta frelsandi í samanburði við samskiptin innan vinkvennahópsins, þar sem henni finnst hún stöðugt bundin af óskrifuðum leikreglum sem breytast í sífellu eftir því sem stelpurnar stækka og þroskast.
Höfundurinn lýsir tilveru nútímabarna af mikilli færni: sumarbúðadvöl og skólagöngu, símum og spjalli við vini í skilaboðaþráðum, lúxusafmælisveislum með sérpöntuðum bollakökum og bernsku sem lýkur allt of fljótt. Samhliða því fáum við innsýn í samband Myy og móður hennar, sem er einstæð. Samskipti mæðgnanna þróast og breytast eftir því sem Myy eldist og einnig þegar afi hennar veikist.
Í frásögninni er sjónarhorni 10 ára barns lýst með ljóslifandi hætti. Myy giskar fyrirfram á það sem mamma hennar ætlar að segja og les hugsanir vinkvenna sinna á milli línanna þegar hana grunar að þær skrifist á í skilaboðum á bak við hana. Myy er illa við að eldast og breytast og vill halda áfram að leika sér af innlifun, þó að hún skynji að breytingar séu óumflýjanlegar.
Laske salaa kymmeneen er vel skrifuð og vel stíluð barnabók um sumar á mörkum bernsku og unglingsára. Bókin fjallar um líf barna á okkar tímum, en lýsingarnar á aðdráttarafli og mætti leikjanna eru þó tímalausar.
Laura Lähteenmäki er finnskur barna- og unglingabókahöfundur. Síðan fyrsta unglingabók hennar kom út árið 1998 hefur hún sent frá sér tuttugu bækur. Lähteenmäki skrifar um daglegt líf ungmenna og það að leita sér að sinni hillu í tilverunni. Hún hlaut hin virtu Arvid Lydeck-barnabókaverðlaun fyrir bókina Marenkikeiju árið 2007 og hefur einnig verið tilnefnd til Topelius-verðlaunanna og Finlandia junior-verðlaunanna. Lähteenmäki býr í Jyväskylä og starfar sem útgefandi meðfram ritstörfunum.