Máret Ánne Sara

Máret Ánne Sara
Máret Ánne Sara: Ilmmiid gaskkas (Milli heima). DAT 2013

„Milli heima“ er fantasíuskáldsaga um tvö systkini sem hverfa úr heimi manna. Nútíminn sækir styrk frá fyrri tímabilum og þau fléttast saman. Lesandinn fær að fylgjast með baráttu systkinanna í öðrum heimi. Leit foreldranna að börnunum er árangurslaus og allir halda að afbrot búi að baki. Börnin hitta fyrir verur úr samískri goðafræði og frásagnarhefð, verur sem þau þurfa að berjast gegn með aðferðum sem þau hafa lært frá unga aldri. Á meðan fólkið þeirra berst gegn mengun umhverfisins sem ógnar grundvelli tilveru þeirra berjast börnin gegn verunum í öðrum heimi. Neðanjarðarfólkið, huldukonurnar, útburðirnir, hjálparandar töframannsins og vitrasta konan sjá og finna sterkast fyrir menguninni.  Á hverju eiga þau að lifa þegar vatnið þornar upp, grasið grær ekki lengur og öll skýin breyta um lit? Þessa vitneskju verða börnin að hafa með sér til heimsins síns ef þau komast þá nokkurn tíma heim aftur. Á fólkið heima eftir að þekkja þau aftur?  Bókin tekur á viðfangsefni sem einnig er hluti af lífi sama, vægðarlaust högg mengunarinnar. Líf hreindýra er til dæmis allt annað en það var fyrir mörgum hundruðum ára en líf samískra ungmenna er heldur ekki eins og líf forfeðra þeirra var.