Maria Navarro Skaranger

Maria Navarro Skaranger

Maria Navarro Skaranger 

Ljósmyndari
Foto: Jo Sivertsen
Maria Navarro Skaranger: Jeg plystrer i den mørke vinden. Skáldsaga. Forlaget Oktober, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur:

Allt frá frumrauninni Alle utlendinger har lukka gardiner árið 2015 hefur Maria Navarro Skaranger komið lesendum á óvart og vakið aðdáun þeirra. Nýjasta bókin, Jeg plystrer i den mørke vinden („Ég blístra í dimmum vindinum“, óþýdd), er hennar besta skáldsaga til þessa. Já, þetta er enn ein norska úthverfaskáldsagan, en texti Skaranger er svo frumlegur og hnitmiðaður að þar virðist eitthvað spánnýtt vera á ferð. Þetta er bæði sársaukafullt og kómískt verk, en rúmar einnig mikla reiði í lýsingum á kerfislægri fátækt.

 

Lýsing höfundar á persónunni Sidsel á eldri árum, þegar hún er lent úti á jaðri samfélagsins, er hjartnæm og spaugileg í senn. Sidsel bregst á mörgum vígstöðvum, bæði sem móðir og amma, en samt hefur lesandinn samúð með henni. Minnir hún ef til vill á hirðfífl miðalda, sem voru vitlaus og vitur í senn? Skaranger tekur bæði áhættu og sýnir kjark með persónulýsingum sínum og tekst svo vel til að á lokasíðu bókarinnar langar lesandann bæði að hlæja og gráta. Skaranger sannar sig hér sem hugaðan höfund að fást við grundvallarverkefni mannlegrar tilvistar: Hver er maður á bak við gardínurnar, þar sem enginn sér til?

 

Sögur af þessu tagi geta auðveldlega orðið að félagsraunsæjum tragedíum í umvöndunarsömum predikunartón. Með Jeg plystrer i den mørke vinden sýnir Skaranger þó að hún hefur óvenjugott vald á forminu. Þegar Sidsel er ófrísk og tekur leigubíl á fæðingardeildina er farið hratt yfir sögu í fæðingunni með þessum orðum: „Hún er innrituð og skoðuð og fáeinum klukkustundum síðar byrjar Sidsel að rembast, og bla bla bla, það eru til ótal lýsingar á fæðingum, það er ekkert einstakt við fæðingu Sidsel, og út kemur stúlka sem vegur um þrjú og hálft kíló [...]“.Frumleg og kjörkuð stílbrögð af þessu tagi sýna að Skaranger er ekki að skrifa léttmeti fyrir millistéttina, heldur skáldsögur fyrir okkur öll. 

 

Jeg plystrer i den mørke vinden er afar áhrifamikil bók sem hefur ýmislegt þýðingarmikið að segja um bæði skáldsagnalistina og norskt samfélag.