Niels Fredrik Dahl

Niels Fredrik Dahl

Niels Fredrik Dahl

Ljósmyndari
Foto: Fartein Rudjord
Niels Fredrik Dahl: Fars rygg. Skáldsaga. Forlaget Oktober, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur: 

Niels Fredrik Dahl á að baki langan og sérstæðan höfundarferil. Allt frá frumraun sinni árið 1988 hefur hann sannað sig sem bæði skáldsagnahöfundur og ljóðskáld. Árið 2017 kom út fimmta skáldsaga hans, Mor om natten, og 2023 fylgdi hann henni eftir með sannkölluðum hápunkti á ferlinum – Fars rygg („Bakið á pabba“, óþýdd). 

  Sænski rithöfundurinn Walter Ljungquist lætur skáldsöguna Nycklar till okänt rum frá 1950 hefjast á eftirfarandi hátt: „Eitthvað er enn eftir í mér: í djúpstæðri tilfinningu fyrir heimilisleysi man ég [...]“ Þessi grípandi og galopna setning gæti sem best verið einkunnarorð Fars rygg

  Eitt af því sem einkennir texta Dahls er sambland þess sem við getum kannski kallað taugaóstyrka nærveru og alveg óviðjafnanlegan hæfileika til myndsköpunar. Hjá Dahl er nákvæmni tungumálsins ekki skilgreind af setningafræðilegum niðurskurði, heldur frekar því að leyfa textanum að nálgast hið nauðsynlegasta með undarlegum kvíða, af sérstakri virðingu fyrir því sem hann kemur til með að afhjúpa. Dahl leyfir orðum, setningum, brotum að fikra sig varlega áfram að því sem smám saman myndar kjarna skáldsögunnar. Á köflum staldrar textinn við, er hikandi, stundum er hann aðkallandi og tafarlaus og ávallt með skýrri viðurkenningu á því hverju tungumálið fær áorkað, bæði hvað varðar tilfinningu og skynsemi.  

  Fars rygg er ríkuleg og grípandi skáldsaga. Hún er það í óróleika sínum, í lönguninni til að varpa ljósi á og skilja mannkynssöguna gegnum vefnað eigin einstöku og brothættu upplifunar og hinna sameiginlegu, næstum yfirþyrmandi atburða heimsins sem við höfum öll einhverja tengingu við. Þannig hleypir Dahl lesandanum líka inn í opna og margslungna frásögn sem er frjáls undan einni ákveðinni bókmenntalegri aðferð, þar sem framsetningu frásagnarinnar er frekar leyft að finna sína eigin flóknu leið gegnum það líf og hinar mennsku forsendur sem skáldsagan afhjúpar gegnum sorg og samkennd, allt til loka: „þar til pabbi er bara eins og ljósdepill á sjónhimnunni.“