Pajtim Statovci

Pajtim Statovci

Pajtim Statovci

Photographer
Jonne Räsänen
Pajtim Statovci: Bolla. Skáldsaga. Otava, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Pajtim Statovci fæddist í Kósovó árið 1990, kom til Finnlands tveggja ára gamall og ólst upp í Porvoo. Fyrsta skáldsaga hans, Kissani Jugoslavia (2014), vakti strax mikla athygli. Með henni kynnti höfundurinn nýtt umfjöllunarefni inn í finnskar bókmenntir: hið stríðshrjáða suðausturhorn Evrópu og fólkið sem þar ráfar um í einskismannslandi sjálfsmyndar og menningar. Statovci hefur meistaraleg tök á finnskri tungu. Texti hans er undantekningarlaust blæbrigðaríkur og margvíður og á köflum kemur hann lesandanum á óvart frá einni setningu til annarrar, einni líkingu til þeirrar næstu og með því að opna á ný sjónarhorn. Önnur skáldsaga Statovcis, Tiranan sydän (2016), hlaut tilnefningu til hinna bandarísku National Book Award-verðlauna í flokki fagurbókmennta árið 2019. Fyrir skáldsöguna Bolla (2019) (hefur ekki komið út á íslensku) hlaut hann Finlandia-verðlaunin í heimalandi sínu, yngstur höfunda fram að því.

Við upphaf skáldsögunnar er orðið bolla skilgreint svo: 1. vofa, ósýnileg vera, óvættur, púki, 2. óþekkt dýrategund, vera sem minnir á snák, 3. utanaðkomandi. Í sögunni hittir lesandinn allar þessar skilgreiningar fyrir í einni eða annarri mynd. Sögumaður bókarinnar, Kósovó-Albaninn Arsim, er óviðkunnanlegur í flestu tilliti.Hann er ístöðulaus, dreymir um að gerast rithöfundur og hefur látið til leiðast að ganga í hjónaband samkvæmt hefðinni. Á kaffihúsi hittir hann mann að nafni Milos og með þeim tekst eldheitt samband. Serbinn Milos er læknanemi við háskólann í Pristínu, sem Albanir eins og Arsim hafa ekki lengur aðgang að. Arsim og Milos eiga sumarlangt ástarævintýri sem umbyltir lífi þeirra og samfara því virðist stríðið færast í aukana. Hermönnum fjölgar á götunum, þrengt er að andrými Albananna og æ fleiri fréttir berast af yfirgangi og ofbeldisverkum. Að lokum eiga Arsim og fjölskylda hans ekki annars úrkosti en að flýja.

Þau enda í úthverfi norrænnar milljónaborgar. Arsim lifir áfram á jaðri samfélagsins og tekst ekki einu sinni að aðlagast félagslífi Kósovófólksins á staðnum. Smám saman verður hann fjarrænn og ofbeldisfullur fjölskyldufaðir og samband hans við eiginkonu og börn einkennist fyrst og fremst af skilningsleysi og fálæti. Að lokum uppsker hann fangelsisdóm og brottvísun. „Gott,“ eru fyrstu viðbrögð hans þegar dómurinn er kveðinn upp. Fjölskyldan verður eftir og Arsim er sendur aftur til Pristínu. Þar einbeitir hann sér að því að lifa af og leita að sínum heittelskaða. Skyndilega sér hann andliti Milosar bregða fyrir í heimildarþætti í sjónvarpinu: „Það er kraftaverki líkast, eða draumi – eins og að sjá tignarlegan, tvíhöfða örn fljúga inn í skreyttan hátíðarsal, springa og verða að seðlum sem rignir yfir viðstadda.“ En svo tekur sagan aftur ófyrirséða stefnu. Það sem stríðið hefur brotið er ekki hægt að laga.

Inn á milli frásagnar Arsims lesum við brotakenndar athugasemdir Milosar, sem liggur á sjúkrahúsi að stríðinu loknu. Þar má lesa annars konar sögu. Af ofbeldi, misnotkun og hatri. Minnispunktar Milosar eru afurð brotins huga og ómögulegt að vita með vissu hvað er satt og hvað ímyndun. Formlaust hatrið í garð alls sem er leynir sér þó ekki. Smám saman öðlast stríðið skýrari drætti, sem og hinar mýmörgu ástæður sem valda því að fólk gengur í her sem háir grimmúðlegt borgarastríð.

Þriðja aðalpersóna bókarinnar er Ajshe, eiginkona Arsims. Hana sér lesandinn aðeins frá sjónarhorni sögumannsins Arsims, sem oftar en ekki er litað af gremju, en smám saman vex hún upp úr hlutverki hefðbundinnar albanskrar eiginkonu („eins og veggfóður“) og verður að hinni sígildu sterku móður. Hún hefur styrk til að berjast fyrir stað sínum í nýju umhverfi og kjark til að rísa til varnar börnum sínum, karpa í skólayfirvöldum og standa keik gegn fjarrænum og mislyndum eiginmanni. Arsim sér konu sína í síðasta sinn á kaffihúsi í Pristínu þegar hún færir honum skilnaðarpappíra til undirritunar. „Hún er ekkert lík sjálfri sér. Eða kannski er það öfugt; nú líkist hún einmitt sjálfri sér, loksins.“

Statovci tekst þó að enda nöturlega frásögnina á bjartsýnum nótum. Arsim heldur áfram námi, hann fær fyrstu söguna sína birta og kannski mun hann líka einhvern daginn byrja að líkjast sjálfum sér – loksins.