Peter Sandström
Skáldsagan Den stora blondinens sista sommar („Síðasta sumar stóru blondínunnar“, ekki gefin út á íslensku) eftir Peter Sandström hefst á því að sögumaður, rithöfundur á miðjum aldri, gengur um húsið sem hann ólst upp í. Það á að tæma húsið og í fyrstu gengur verkið nokkuð vel, en því smærri og ómerkilegri hlutum sem sögumaður stendur frammi fyrir, því meira hikar hann. Frammi fyrir síðustu leifunum af innblásnu, móðurlegu mataræði – „Túpa af sinnepi, jógúrtdós, tómatsósa, hunang, allt gamalt og skrælnað“ – tekur hann ákvörðun: „það þurfti að varðveita þá reglu sem ríkti í eldhúsinu ef ég átti nokkurn tíma að geta lokið við þetta. Þetta var eins og taflborð í skák sem ekkert lá á að klára; taflmennirnir stóðu kyrrir og dagar eða vikur eða mánuðir gátu liðið frá einum leik til annars.“
Hér er fjallað um hversdagsleg verkefni sem mörg okkar verða að takast á við fyrr eða síðar, og oft skýtur hugsunarhætti töfranna upp mitt í hinu praktíska. Dauðinn og brjálæðið láta lítið fyrir sér fara í útjaðri lífsins, sem og skynsemin á stundum. Að söguhetja Sandströms skuli upplifa vanmátt og efa í eldhúsinu, af öllum stöðum, kemur þeim ekki á óvart sem þekkja til fyrri verka hans. Mamma, eða „mamm“ eins og hún er kölluð á finnlandssænskri mállýsku, er mögnuð vera í skáldheimi hans og er oft lýst af hlýju og kímni. Í Den stora blondinens sista sommer gegnir móðirin einnig mikilvægu hlutverki, en að þessu sinni eru aðrar konur þýðingarmeiri. Eða öllu heldur afstaða sögumannsins til þeirra.
Um leið og söguhetja Sandströms tæmir húsið býr dóttir hans sig undir að flytja að heiman. En hvernig fer karlmaður í Turku að því að vera faðir fullorðinnar konu sem stundar nám í Utrecht?
Slíkt kemur meginlandsflekum sálarinnar á hreyfingu, hve varlega sem stigið er til jarðar.
Brestir myndast í jarðskorpu líðandi stundar og sumartíð frá níunda áratugnum streymir fram. Þetta sumar var aðalpersónan mjög ung, ástfangin af hinni hvikulu Limone, og átti stuttan en glæstan draum um föðurhlutverk sem aldrei varð að veruleika. Þeim ósigri reynist auðveldara að gleyma en að koma í orð, en þó skildi hann eftir sig eitt spor sem nú verður sýnilegt.
Sögumaður minnist hins einmanalega sumars að loknu sambandinu við Limone, þegar hún fór í ferðalag og lét hann fá lykil að íbúðinni svo að hann gæti vökvað blómin. Hann rifjar upp hvernig hann snuðraði í þeim ummerkjum sem hann fann um hana, fletti dagbókinni hennar, sem hann var ekki einu sinni nefndur á nafn í, og þar sem þungunarrofið var afgreitt með hinu misritaða orði „aðgeð“. Hann minnist þess hvernig hann fékk sér símsvara og hringdi í hann úr símanum hennar eða úr símaklefa í bænum, til að geta komið heim, séð rautt ljósið á símsvaranum blikka sig með fögrum fyrirheitum og trúað því í eitt skammvinnt augnablik að Limone hefði hringt. Og hann minnist Virtanen, samstarfsfélaga sem leiðbeindi honum um leyndardóma gluggaþvottarins þegar hann var í sumarvinnu hjá þrifafyrirtæki, sem plástraði sár á hendinni á honum og sýndi honum myndir af ástkæru gufuvélunum sínum.
Den stora blondinens sista sommar er drepfyndin og nístandi á víxl í lýsingum sínum á tímalausum mannlegum viðfangsefnum eins og ást, foreldrahlutverkinu og því að eldast – í prósa sem er í senn jarðbundinn og hlaðinn ákefð í tilfinningu jafnt sem hugsun.
Peter Sandström er fæddur 1963 og steig fyrst fram á ritvöllinn 1998 með smásagnasafninu Plebejerna („Plebeiarnir“, óþýdd). Síðan hefur hann sent frá sér tvö smásagnasöfn og sex skáldsögur og hlotið fjölda verðlauna, svo sem Runeberg-verðlaunin og jólaverðlaun Samfundet De Nio árið 2017 fyrir skáldsöguna Laudatur („Hæsta einkunn“, óþýdd), verðlaun Signe Ekblad-Eldh frá sænsku akademíunni árið 2021 og verðlaun menningarsjóðsins Längmanska sama ár fyrir skáldsöguna Kärleken är ett tamdjur („Ástin er húsdýr“, óþýdd).