Rakel Helmsdal

Photographer
Gwenael Akira Helmsdal Carre
Rakel Helmsdal: Toran gongur. Myndabók, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Hin fjórtán ára gamla Aurora er aðalsögumaður bókarinnar Toran gongur („Þrumurnar dynja“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) þar sem frásögnin hverfist um stórt hús. Aurora býr ásamt Marinusi föður sínum og Kaspian, átta ára bróður sínum, á miðhæð hússins. Fyrir ofan þau búa mæðgurnar Enara og Sirje sem hafa flúið heimaland sitt. Á neðstu hæðinni býr frú Iris, sem er ekkja og píanóleikari á eftirlaunum, og í íbúðinni við hliðina býr hinn ungi og mannfælni Viktor. Íbúar hússins eiga ekki mikil samskipti sín á milli en það breytist einn daginn þegar Aurora eldar of mikið af súpu í kvöldmatinn. Börnin bjóða öllum í húsinu til kvöldverðar og þegar allir íbúarnir þiggja boðið, þvert á væntingar, eiga þau notalega kvöldstund saman. Sirje sofnar á sófanum hjá Kaspian og Auroru og fullorðna fólkið er sammála um að leyfa henni að sofa. Um nóttina geisar stormur úti og þrumurnar dynja. Morguninn eftir er Sirje horfin. Allir íbúar hússins leita að henni í sameiningu en hún finnst hvergi. Í leitinni að Sirje hittir hvert þeirra fyrir sín eigin vandamál og áföll, sem öðlast nýtt samhengi í þessum nýfundna félagsskap. 

 

Öllum íbúum hússins er illt í hjartanu. Faðirinn Marinus og systkinin Aurora og Kaspian sakna mömmunnar sem yfirgaf þau. Frú Iris er ekkja og hefur glatað tónlistinni úr lífi sínu. Mæðgurnar Enara og Sirje hafa flúið stríðsástand og eiga sér leyndarmál undir höfuðklútunum. Viktor er einn og skortir sjálfstraust til að horfast í augu við heiminn. Í bókinni er skipt á milli sögumanna og þannig öðlast lesandinn blæbrigðaríka innsýn í aðstæður og tengsl persónanna. 

 

Með bókinni Toran gongur setur Rakel Helmsdal orð og myndir á ýmis brýn vandamál í nútímasamfélagi og hið bráða ástand í heiminum í dag. Frásögnin er einföld og flókin í senn. Í henni er tekist á við alvarleg viðfangsefni á borð við einmanaleika, sorg, dauða, stríð og áföll, en jafnframt er fjallað um óhefðbundin fjölskyldumynstur, vináttu og mikilvægi samkenndar. 

 

Bókin er ríkulega myndlýst og áhrifamiklar myndirnar eru afurð vandvirknislegs ferlis sem Helmsdal á sjálf heiðurinn af. Hún mótar fígúrur og saumar búninga, byggir upp senur, tekur ljósmyndir, gerir grafísk prent, setur myndir saman og litar þær með vatnslitum. Myndirnar auðga textaheim Helmsdal og eru orðnar að einkenni á höfundarverki hennar. Í bæði myndum og texta bókarinnar búa áhugaverðar vísanir, meðal annars í eldri færeyskar bókmenntir og sígild alþjóðleg verk. 

Rakel Helmsdal (f. 1966) er þekkt í Færeyjum fyrir bækur sínar og hefur einnig getið sér gott orð víða um Norðurlönd. Síðan fyrsta bók hennar kom út árið 1995 hefur hún skrifað fjölda bóka fyrir börn jafnt sem fullorðna. Hún er nú tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í sjötta sinn.