Rakel Helmsdal

Hon, sum róði eftir ælaboganum
Rakel Helmsdal: Hon, sum róði eftir ælaboganum. Skáldsaga, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2014

Hin sextán ára gamla Argantael hefur ákveðið að kasta lífi sínu fyrir róða. Einn örlagaríkan dag rífur hún síðurnar úr dagbókinni sinni og hendir í sjóinn. Svo rær hún bát kærasta síns nógu langt út til að geta verið viss um að ná ekki aftur að landi þegar hún hefur hent árunum útbyrðis. Meðan á þessu stendur leitar hugur hennar aftur til liðinna atvika sem veita lesandanum innsýn í erfiða æsku, markaða af tilfinningalegri fátækt. Viðfangsefni sögunnar eru sígild hugðarefni ungs fólks: samband við foreldra, vinátta, draumar, skilyrðislaus ást í ýmsum myndum og sterkar tilfinningar. Í heimi Argantael sjáum við afleiðingarnar af geðsjúkdómi og vanrækslu, og lifum okkur inn í afbrýði hennar og sorg. Við fylgjumst með fálmkenndum tilraunum hennar til að fóta sig í lífinu, sættast við eigin kynhneigð og sjálfsmynd almennt.

Viðfangsefni Hon, sum róði eftir ælaboganum („Hún, sem réri mót regnboganum“, hefur ekki komið út á íslensku) er örlagaþrungið og engar skyndilausnir í sjónmáli, en léttleiki frásagnarinnar í bland við drifkraft atburðarásarinnar gera söguna heillandi og skemmtilega aflestrar. Taktur í tónlist og dansi, sem eru gegnumgangandi stef í bókinni, fylgir stúlkunni alla leið meðan hún rær taktfast á vit dauðans. Þó að dauðinn vomi yfir atburðarásinni eins og skuggi er hver síða bókarinnar þrungin lífi og lífsvilja; sá möguleiki er ávallt fyrir hendi að fólk sé fært um að sigrast á vandamálum sínum þegar til kastanna komi.

Textinn er flókinn og margræður, hlaðinn ríkulegu myndmáli og ýmiss konar vísunum. Dýpt hans og túlkunarmöguleikar bæði ögra lesandanum og heilla hann.

Lesandinn stígur inn í aðstæður sextán ára stúlku og finnur fyrir löngun til að berjast við hlið hennar; róa lífróður – frásögnin færir honum heim sanninn um að lífið sé ómetanlegt, þrátt fyrir alla erfiðleika og burtséð frá þeim áskorunum sem á vegi manns verða.

Rakel Helmsdal (f. 1966) er mikilvirkur höfundur sem um árabil hefur gefið út bækur fyrir börn á öllum aldri, auk leikrita og smásagna handa fullorðnum. Þetta er fyrsta unglingaskáldsaga hennar. Sögusvið sögunnar um Argantael er uppskáldaði bærinn Port Janua, sem einnig kemur fyrir í öðrum verkum höfundar.