Sabine Forsblom: Maskrosgudens barn

Sabine Forsblom
Ljósmyndari
Marit Björkbacka
Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2015

Önnur skáldsaga Sabine Forsblom, Maskrosgudens barn, er djörf frásögn sem samanstendur af mörgum smærri sögum, en allar hverfast þær um stúlkuna Betinkan, sem elst upp í verkamannafjölskyldu í Porvoo í Austur-Nýlandi á 7. og 8. áratug 20. aldar. Undir kátu og málglöðu yfirborði er kjarni sögunnar harður og sviptur tálvonum. Sabine Forsblom hefur ekki aðeins skrifað þroskasögu, heldur framkvæmt félagssálfræðilega rannsókn á gangverki illskunnar, og allt að því nákvæma félagslega kortlagningu á hinum misleita hópi ættingja, vina og nágranna Betinkan.

Sabine Forsblom (f. 1961) hóf ritferil sinn árið 2004 með skáldsögunni Maskrosguden. Sú bók var álitin óvenju góð frumraun og hlaut verðlaun Sænska bókmenntafélagsins í Finnlandi (Svenska Litteratursällskapet). Líkt og fyrsta bók höfundar er bókin sem nú er tilnefnd skrifuð á kjarngóðri mállýsku, og sögusviðið er sama samfélag finnlandssænsks verkafólks í Austur-Nýlandi.

Í viðtali hefur Forsblom vitnað í þekkt ummæli Charlie Chaplin um lífið: að það sé broslegt úr fjarlægð, en sorglegt úr nálægð. Í Maskrosgudens barn skiptist sjónarhornið fyrirvaralaust á milli nálægðar og fjarlægðar. Lesandinn hlær með hinum glettnislega sögumanni að hroka mannfólksins og hégómlegum þrám, til þess eins að finna svo til samúðar með Betinkan þegar hún vaknar nakin og timbruð á köldu gólfi. Sögumaður beitir ýmiss konar brögðum til að viðhalda fjarlægðinni og halda sársaukanum í skefjum: talar óbeint um aðalpersónuna, „hún sem hét Betinkan“, og þurrkar hana stundum alveg út sem viðfang: „Í rúmi í herbergi er kveikt á litlu vasaljósi undir lítilli ábreiðu.“ Það að Forsblom sé í síðustu senu bókarinnar komin svo nærri hinni ráðvilltu stúlku að hún skrifar: „Hér er ég,“ hlýtur að teljast sigur.

Tilvera Betinkan einkennist af drykkju og einelti, fátækt, veikindum og sóðaskap, en hún á sér einnig örugg afdrep á bókasafninu, á hlýlegu heimili móðurforeldra sinna, og í hesthúsinu þar sem úr sér gengnir jálkar eru geymdir. Eymdin minnir um margt á verk Susönnu Alakoski, en persónur Forsbloms hafa allt aðra sjálfsvitund og kjölfestu. Og síðast en ekki síst hafa þær munninn fyrir neðan nefið. Þær æpa, öskra og halda skammarræður, en þær segja líka frá og lesa sögur. Sögupersónurnar hafa kennt Forsblom „að staldra við, frasera og frísera [pausering, frasering och frisering],“ og gegnum skopstælingu og blíðu hefur henni tekist að skapa bókmenntalegt meistaraverk. Að auki kynnist lesandinn undirstöðuatriðum mállýskunnar, sem töluð er í Austur-Nýlandi, í orðalista aftast í bókinni, og getur bætt við oðraforða sinn gagnlegum orðum á borð við: halunkar – ungir menn sem eru fjarri því draumatengdasynir, pletuga – barnalegir, og snåte – svæðið kringum nef og munn.