Saia Stueng

Photographer
Tanja Norbye
Saia Stueng: Hamburgerprinseassa – Eallá dušše oktii. Unglingabók, Davvi Girji, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Hamburgerprinseassa – Eallá dušše oktii („Hamborgaraprinsessan: Maður lifir bara einu sinni“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) er unglingabók, skrifuð á norður-samísku, um stúlkuna Máren. Hún er 17 ára og á síðasta ári í framhaldsskóla. Máren reynir eftir fremsta megni að komast í gegnum dagana í skólanum. Erfiðleikar heima fyrir urðu til þess að hún flutti inn til Máhtte. Máhtte er eldri maður sem hún á í ástarsambandi við og líka eini vinur hennar.  

 

Í skólanum finnst Máren hún ekki passa inn í hópinn og hún upplifir útilokun og félagslega stimplun. Á bak við hana leynist líka myrkur, áfall sem móðir hennar varð fyrir og sem setur mark sitt á Máren. Stueng glímir hér við nýtt og mikilvægt viðfangsefni: einelti og þann skaða sem stafrænt einelti getur valdið. Lesandinn skynjar óttann, skömmina og fyrirlitninguna sem Máren finnur þegar hún felur sig úti í skemmu eftir að hafa séð myndskeið þar sem móðir hennar er beitt kynferðisofbeldi. Þetta tvískipta áfall útskýrir líka af hverju bæði Máren og móðir hennar eiga erfitt andlega, sem og það af hverju samband mæðgnanna er slæmt. 

 

Þó að Máren eigi við erfiðleika að stríða bæði í einkalífi og skóla sýnir hún að hún er atorkusöm og á sér framtíðaráform. Hamburgerprinseassa – Eallá dušše oktii er unglingabók sem hrífur lesandann með sér inn í daglegt líf samískra ungmenna. Með hugarfari kenndu við EDO eða YOLO kynnir höfundur okkur fyrir Máren og sveiflunum í andlegri líðan hennar.  

 

Lesandinn fær nána og persónulega innsýn í það hvernig átraskanir geta tekið yfir hugsanir og hegðun fólks og það hvernig grundvallaratriði á borð við mat getur orðið að úrræði til þess að höndla tilfinningalega erfiðleika. Lýsingar Stueng eru bæði hráar og tilfinningaríkar og stuðla að auknum skilningi á átröskunum meðal ungs fólks. 

 

Höfundurinn hefur mikla frásagnarhæfileika og tekst hér á við mikilvæg viðfangsefni sem ungt fólk getur borið kennsl á úr eigin tilveru og lært eitthvað af. Stueng tekst að fanga kjarna unglingsáranna með eftirtektarverðum hætti. Hún lýsir bæði innri og ytri glímum Márenar af trúverðugleika sem lætur lesandann ekki aðeins skilja heldur líka skynja þann sársauka og von sem aðalpersónan finnur. Með tungutaki sem er sprúðlandi af orku ungu kynslóðarinnar, og felur um leið í sér þann þunga sem fylgir auknum þroska, miðlar Stueng af næmni þeim flækjum sem fylgja uppvexti í nútímasamfélagi. Geðsveiflur Márenar halda lesandanum föngnum í Samalandi allt frá skammdeginu, gegnum veturinn og fram að páskahátíðinni. 

 

Bókin ögrar samísku samfélagi með því að takast á við erfið en kunnugleg viðfangsefni á borð við átraskanir, sjálfshatur, samkynja ást, áföll, kynferðisofbeldi og stafrænt einelti. Hér er á ferð mikilvæg samtímarödd sem ávarpar ekki aðeins sértæk vandamál í daglegu lífi samískra ungmenna, heldur einnig þær almennu áskoranir sem ungmenni hvar sem er standa frammi fyrir í leitinni að sínum stað í heiminum. 

Saia Stueng (f. 1993) er frá Karasjok í Noregi og er með meistaragráðu í samískum bókmenntum frá UiT í Noregi. Nú er hún doktorsnemi við Sámi Allaskuvla, samíska háskólann í Kautokeino. Hún hefur starfað sem samískukennari í framhaldsskóla og tekið þátt í ritlistarnámskeiðum á vegum Samíska rithöfundasambandsins og Samaþingsins. Fyrsta bók Stueng var Hamburgerprinseassa árið 2017. Hamburgerprinseassa – Eallá dušše oktii er önnur bók hennar um aðalpersónuna Máren og sjálfstætt framhald þeirrar fyrri.