Svensk Kolinlagring – Svíþjóð

Svensk kolinlagring
Photographer
norden.org
Umskipti til sjálfbærs landbúnaðar gegnum miðlun þekkingar, rannsóknir og hagnýta reynslu.

Svensk Kolinlagring er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Ör vöxtur Svensk Kolinlagring, sem stofnað var af MiljöMatematik Malmö, hefur vakið athygli og á öðru ári verkefnisins hefur þegar tekist að ná saman 40 býlum, 11 fyrirtækjum, fjórum háskólum og fjölmörgum öðrum hagaðilum sem vilja taka þátt í að skapa sjálfbært landbúnaðarkerfi sem bindur kolefni úr andrúmsloftinu í sænsku landbúnaðarlandi.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að hröðum umskiptum matvælakerfisins með því að taka með kerfisbundnum hætti á mörgum áskorunum samtímis. Aðferðin byggir á rannsóknum og er hönnuð til þess að binda kolefni, auka lífrænt innihald jarðvegs og frjósemi, varðveita líffræðilega fjölbreytni og búa til vistkerfisþjónustu ásamt því að auka hagnað og arðsemi landbúnaðar.

Svensk Kolinlagring byggir á rannsóknum og hagnýtri þekkingu á aðferðum við kolefnisgeymslu ásamt víðtækari hugtökum eins og þolmörkum jarðar (Rockström o.fl. 2009) og „kleinuhringjalíkaninu“ sem lýsir sjálfbæru hagkerfi (Raworth, 2021).

Verkefnið er tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs vegna þess að í því leitast Svensk Kolinlagring við að umbreyta landbúnaði til að gera hann umhverfis- og loftslagsvænni og auka með því sjálfbærni matvælakerfisins.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.