Theis Ørntoft

Theis Ørntoft

Theis Ørntoft

Photographer
Fotografkreditering: Sara Galbiati, Gyldendal Medie
Theis Ørntoft: Jordisk. Skáldsaga, Gyldendal, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur: 

Hvernig má koma í frásögn því flókna ástandi sem nefnt hefur verið hið mannhverfa (e. anthropocene)? Sem sagt, tímaskeiði þar sem manneskjan er orðin að jarðfræðilegum þætti sem breytir skilyrðum á plánetunni okkar. Er hægt að segja frá því í skáldsögu? Líklega er svarið á þá leið að það sé ekki hægt. Hinir undirliggjandi þættir eru nefnilega svo flóknir að varla er hægt að setja þá saman í frásögn. Frásagnir kalla á ákveðnar persónur, orsakasamhengi, ætlanir, atbeina. Allt eru þetta hlutir sem ekkert vit er í innan skilgreiningar hins mannhverfa. En það er hægt að segja frá vesalings fólkinu sem lifir við þetta eymdarástand. Fólki sem er ofurselt – ef ekki örlögum sínum, þá í það minnsta ástandi jarðarinnar, og sem getur ekki annað en streðað áfram og reynt einhvern veginn að láta þetta allt saman ganga upp á þessum tilviljunarkennda stað í óskiljanlega stóru sólkerfi sem hefur gerst slíkur örlagavaldur að láta líf kvikna á einni af hinum átta stjörnum sínum. Þetta er útgangspunkturinn í Jordisk („Jarðneskt“, óþýdd) eftir Theis Ørntoft. 

 

Hér hittum við meðal annars mann að nafni Ernst. Árið er 1967 og hann er staddur á Tenerife ásamt Inger, eiginkonu sinni. Þau eru í gleðskap á hótelinu en eftir að Inger fer snemma í háttinn er Ernst boðið upp í dans af ókunnugri, daðursfullri konu. Hann ákveður þó frekar að taka leigubíl upp á fjall. Hér gæti lesandinn haldið eitt augnablik að Ernst teygi fram höndina og snerti sjálfa vetrarbrautina, en það reynast aðeins vera lokaðar dyrnar á stjörnuskoðunarstöð. Þannig er ekki langt á milli stjörnufræðinnar og innra lífs Ernst þar sem hvort tveggja verður álíka órannsakanlegt, en tengingin er til staðar líkt og sterkur togkraftur í lífinu sem hvorki verður höndlaður né skilinn. Það er slíkur togkraftur sem þessi mikla samtímaskáldsaga reynir að fanga. 

Ernst segir upp starfi sínu í banka og fer að vinna í olíuiðnaðinum, því hann óttast gjaldmiðil sem er óhlutbundinn, óljós og óáþreifanlegur. Rof peninganna frá hinu áþreifanlega verður að táknmynd þess veruleika sem allar persónur Jordisk eru staddar í. Veruleika sem hefur í ölllum meginatriðum slitið sig lausan frá hinu hlutkennda, bæði í hugsun og framkvæmd. 

 

Skáldsagan skiptist í fimm hluta og hefur stórt persónugallerí. Auk Ernst hittum við Alice dóttur hans og börnin hennar þrjú, Joel, Rhea og Miriam. Að auki kynnumst við bandarískum föður systkinanna, Nick. Eftir stormasamt upphaf á hjónabandinu hallar smám saman undir fæti hjá honum uns hann skilur við Alice og lætur sig hverfa heim til Bandaríkjanna. Í þeim hluta bókarinnar sem fjallar um Nick er hann á snúrunni um tíma, og er nú einnig faðir Juliu sem er rithöfundur og fyrrum snjóbrettakempa.  

Skáldsaga Ørntofts er þannig ekki aðeins bandarísk hvað yfirbragð snertir, þ.e. að því leyti að hún minnir á fjölskylduskáldsögur höfunda á borð við Jonathan Franzen og inniheldur vísanir í stórvirki Johns Steinbeck, Austan Eden – um æðar margra af persónunum rennur jafnframt bandarískt blóð.  

 

Þannig verða Bandaríkin, með góðu og illu, skilgreiningarafl fyrir þann samtíma sem verkið reynir að fanga. Stíll skáldsögunnar getur virst dálítið tilfinningasnauður og einn gagnrýnandi lýsti henni sem „skáldsögu lömunarinnar“ – kannski má tala um prósa með bensódíasepíni – samt sem áður, eða kannski einmitt þess vegna, rennum við fyrirhafnarlítið af einni síðu yfir á þá næstu, frá einni óleystri frásögn til annarrar, svipað því sem sést hefur í ýmsum metnaðarfullum kvikmyndum og þáttaröðum hin síðari ár. Dæmi um slíkt gæti verið Happiness (1998) eftir Todd Solondz, eða sjónvarpsþáttaröðin Succession (2018–2023). Lesandinn líður áhyggjulaus frá mikilvægustu atburðum lífsins að léttvægum upplýsingum, eins og þegar Alice er á heimleið eftir að hafa fylgt Ernst sínum til grafar og verður hugsað til gamallar fréttar frá 1971, þar sem sagt var frá svörtum pardus sem hafði sloppið úr dýragarðinum í Álaborg.  

Allar persónur Jordisk líða fyrir það, hver á sinn hátt, að vera manneskjur – allt of miklar manneskjur. Þær jarðbundnustu og því ef til vill mestu hetjurnar eru Alice og Julia, á meðan karlarnir í skáldsögunni eru almennt hneigðir til flótta og eiga til að tapa sér í öllu frá drykkju til dystópískra ljóða og dansandi stúlkna á TikTok sem hafa rétt svo náð lögaldri. 

 

Ørntoft er best þekktur sem ljóðskáld. Fyrsta bók hans var Yeahsuiten árið 2009, en hann sló fyrst í gegn fyrir alvöru með hinni dystópísku ljóðabók Digte 2014 árið 2014. Árið 2018 kom út fyrsta skáldsaga hans, Solar, sem gagnrýnendur hafa kallað „hrottalega góða bók“ og sem hefur náð vissum költ-status í sumum kreðsum. Í Solar verða sögulokin einmanaleg og óraunveruleg þar sem öll byrði mennskunnar lendir á einum stað, á aðalpersónunni Theis, sem – líkt og í tölvuleik sem spilaður hefur verið til enda – hefur ekki fleiri staði til að flýja á. Í Jordisk er byrðinni og erfiðleikunum deilt á nokkrar persónur. Mannhatrið verður heldur ekki eins áberandi og hjá til dæmis Bret Easton Ellis eða Michel Houellebecq, því að áhuginn á þeim persónum sem við kynnumst er einlægur þótt hann sé oft vonlaus. Þrátt fyrir fyrrnefnda lömun og þann vonleysislega prósa sem hún getur af sér er eitthvað í þessari skáldsögu, í sýn hennar á persónurnar, sem heldur fast við að lýsa þeim sem manneskjum fremur en einföldum fígúrum. Í þessu liggur kannski eina vonin: Jordisk hefur að geyma raunverulegan áhuga á þeim persónum sem sagt er frá, líka þótt þær hafi ef til vill aðeins áhuga á sjálfum sér og þeim togkrafti sem alheimurinn lætur stöðugt vera að verki í þeim.