Veikko Holmberg og Sissel Horndal (ill.)
Þessi bók er tileinkuð öllum sem þurfa að láta undan kröfum samfélagsins.
Á þessum orðum hefur höfundur frásögnina og leiðir lesandann inn í sögu þar sem aðalpersónur eru birnan Durre og bjarnarhúnninn Darre. Viðfangsefni sögunnar er alþjóðlegt, en sögusviðið er í námunda við Inari í Norður-Finnlandi. Eins og bjarna er siður liggja Durre og Darre í híði á veturna, langt norður í landi. En vordag nokkurn eru þau skyndilega vakin með hrikalegum látum. Það kemur á daginn að rétt við vetrarbústað þeirra liggur snjósleðaslóði.
Þetta leiðir til ágreinings milli snjósleðafólksins og bjarnanna. Togstreitan verður svo mikil að á endanum fær snjósleðafólkið leyfi til að skjóta birnina. Veiðarnar eru þó stöðvaðar áður en allt er um seinan.
Atburðarásin er táknræn fyrir árekstur gamalla tíma og nýrra og sýnir hve auðvelt er að raska jafnvægi í náttúrunni þegar mannfólkið þarf svigrúm til að sinna hugðarefnum sínum. Boðskapur sögunnar minnir á reglu sem gildir í fjallamennsku: Engin skömm er fólgin í því að snúa við í tæka tíð. Þetta má segja að eigi við í allri náttúrunni.
Í samfélagi Sama hafa slíkar reglur um umgengni við dýr og náttúru lifað í munnlegri geymd. Megintilgangur þeirra er að gera fólk meðvitað um umhverfi sitt, leiðbeina því og hvetja til að standa vörð um náttúruna. Í dag eru bókmenntir stundum látnar sinna þessu hlutverki og flytja boðskapinn áfram til komandi kynslóða.
Málfarið í bókinni endurspeglar hina munnlegu frásagnarhefð Sama. Höfundur notar ýmis hugtök úr náttúrunni, án þess þó að textinn verði of flókinn fyrir börnin sem hann er ætlaður. Auðvelt er að fylgja söguþræðinum eftir, finna til samúðar með björnunum og skilja þær þjáningar sem steðja að þeim. Lesandinn kann að spyrja sig þess hvort mannfólkið þurfi nauðsynlega svo víðfeðm landsvæði til að sinna áhugamálum sínum.
Sagan öðlast aukið líf í natúralískum litmyndum sem skjóta stoðum undir þemað. Frásögnin leiðir lesandann áfram allt frá ljósum purpuralitum vorsins til jarðlita haustsins. Björninn sem stendur í hrollköldu vetrarlandslaginu færir lesandann nær söguþræðinum og undirstrikar það ójafnvægi sem hlýst af því að vekja birnina of snemma. Birnir eiga auðvitað að sofa á veturna.
Gæflynt eðli bjarnarins kemur einnig skýrt fram í myndskreytingunum, en myndirnar gefa til kynna gæsku, samlyndi og skyldleika við mannfólkið. Allt myndar þetta andstæðu við þá yfirgangssemi sem einkennir óvini bjarnanna. Myndskreytingarnar bæta miklu við söguna og styrkja þá upplifun lesandans að hyggindin sigri að lokum.