Karin Erlandsson og Peter Bergting (myndskr.)

Karin Erlandsson og Peter Bergting
Photographer
Marcus Boman og Caroline Andersson
Karin Erlandsson og Peter Bergting (myndskr.): Nattexpressen. Unglingabók, Schildts & Söderströms og Bonnier Carlsen, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Fyrir jólin er hin ellefu ára gamla Danja vön að halda ásamt fjölskyldunni heim til móðurömmu sinnar og dvelja þar yfir hátíðirnar. Amma hennar býr í gamalli lestarstöðvarbyggingu við hliðina á lestarteinum sem ekki eru lengur í notkun. Hún verður sífellt gleymnari með aldrinum og talar samhengislaust um dularfullan silfurlykil. Þegar amma hverfur síðan sporlaust úr svefnherberginu sínu uppgötvar Danja að á nóttunni stoppar hin dularfulla Næturhraðlest fyrir utan húsið. Hún stígur um borð í lestina, sem flytur hana í veröld þar sem fólk leitar horfinna ástvina á hinum og þessum lestarstöðvum með aðstoð muna sem geyma sterkar, sameiginlegar minningar. Danja kynnist Konrad, sem leitar horfins föður síns, og kemst að því að móðurafi hennar hannaði Næturhraðlestina eins og hún leggur sig. Nú þarf þó að leggja lokahönd á vélbúnaðinn svo að afi komist til baka. En hver er konan sem ræður ríkjum á stöð númer tólf og sér um munina, og hverju er konan með rauðu hettuna eiginlega á höttunum eftir?

Í þessari sögu, sem sækir innblástur í bókmenntastíl kenndan við gufupönk, fylgjumst við með leit Dönju að ástkærri ömmu sinni innan um uppfinningar, tannhjól, brautarteina og ýmsa furðulega muni. Sögusviðið er töfrum gæddur draumaheimur, handan tíma og rúms, og frásögnin er afar margslungin. Hún fjallar um söknuð eftir ástvinum, en einnig um það að eldast og um geðræn vandamál. Börnin reyna að átta sig á heimi hinna fullorðnu og þeim flóknu krossgötum sem fólk stendur oftar en ekki á. Líkt og í fyrri barnabókum Erlandsson er viss fjarlægð milli barnanna og foreldra þeirra, sem eru uppteknir af sínum eigin hugðarefnum. Börnin eru sjálfstæð og skarpskyggn og sjá til þess að allt verði eins og það á að vera. Með hjálp sagnatöfranna er allt hægt!

Karin Erlandsson er álenskur rithöfundur sem hefur tvisvar áður hlotið tilnefningu til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nattexpressen („Næturhraðlestin“, hefur ekki komið út á íslensku) hlaut Runeberg Junior-verðlaunin árið 2021, þar sem endanlegur sigurvegari er kosinn af börnum. Sænski myndskreytirinn Peter Bergting teiknaði myndirnar í bókinni. Teikningar Bergtings, í dökkum og drungalegum stíl sem minnir á teiknimyndasögur, auka enn á spennu og alvöruþunga frásagnarinnar. Nattexpressen er í 24 köflum og gæti því hentað vel til upplestrar í desembermánuði við að telja niður dagana til jóla.