Sjálfbærar samgöngur í lofti, á láði og legi

08.05.24 | Fréttir
Sporvogn
Ljósmyndari
Jonathan Noack, Unsplash
Græn umskipti í samgöngumálum gegna lykilhlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ef við ætlum okkur að hætta að þurfa að treysta á jarðefnaeldsneyti frá svæðum þar sem óstöðugleiki ríkir. Lausnin er fólgin í samspili nokkurra geira, svo sem orkugeirans, og samstarfi þvert á norræn landamæri. Þetta var meginniðurstaða norrænnar ráðstefnu um grænar samgöngur sem nýlokið er í Gautaborg.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa samgöngur á Norðurlöndum þróast gríðarlega mikið, hvort sem litið er til almennings- eða einkasamgangna. Í meginatriðum hefur það komið sér vel fyrir atvinnulífið og frjálsa för á milli hinna norrænu landa en á hinn bóginn hafa áhrifin á loftslagið ekki verið góð. Rekja má næstum því fjórðung allrar losunar gróðurhúsalofttegunda í Evrópu til samgangna og eru þær meginástæða mengunar í þéttbýli.

 

Risavaxið verkefni að breyta samgöngugeiranum

Að sögn Karenar Elleman, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, hefur nefndin lengi lagt sitt af mörkum til grænna umskipta í samgöngumálum og vill halda áfram á þeirri braut: 
„Það er gríðarstórt viðfangsefni að umbreyta samgöngugeiranum eins og hann leggur sig og þróa þá nýju tækni sem til þarf. Það krefst samvinnu og þverfaglegrar nálgunar. Við þurfum hreina og örugga orku og samgöngur. Við þurfum fyrirtæki sem koma með nýjar lausnir, við verðum að draga úr losun og hafa hringrásarhugsun og sjálfbærni að leiðarljósi,“ sagði Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í opnunarávarpi sínu.

Heildstæð nálgun

Í pallborðsumræðunum sem á eftir fylgdu var rætt um áskoranir og lausnir en í pallborði voru Peter Engdahl frá sænsku orkustofnuninni, Tommaso Selleri frá Umhverfismálastofnun Evrópu, Anna Engholm frá Greater Copenhagen og Sveinung Oftedal frá norska loftslags- og umhverfisráðuneytinu. Lykilatriði í þessu sambandi voru sögð þau vannýttu tækifæri sem umskipti í samgöngum á sjó myndu hafa í för með sér og felast í heildstæðri nálgun á græn samgöngumál almennt og ekki síst þau tækifæri sem fólgin eru í norrænu samstarfi um þróun á sviði raforku- og orkumála.

 

Orkugeirinn leikur lykilhlutverk

Klaus Skytte, framkvæmdastjóri Norrænna orkurannsókna, tekur undir að raforku- og orumálin gegni mikilvægu hlutverki.

„Það eru gríðarleg tækifæri til jákvæðra breytinga í orkumálum. Með því að nýta endurnýjanlegar orkulindir, fjárfesta í hreinni tækni og leggja áherslu á sjálfbæra hætti er hægt að bylta samgöngugeiranum,“ sagði Skytte. Með þeim orðum sló framkvæmdastjórinn tóninn fyrir kynningu á fimm norrænum orkuverkefnum. Þau stuðla að heildarskilningi á úrlausnarefnunum, nýrri þekkingu og rannsóknum sem flýtt geta fyrir nýsköpun og draga úr tvíverknaði. Verkefnin falla undir þverfaglegt norrænt samstarf:


•    Nordic Roadmap – Future Fuels for Shipping
•    Nordic Cycle Power Network
•    Electric Aviation and the effects on the Nordic region
•    Hydrogen from Green Surplus Energy in Isolated Areas for Sea and Land-based Transport
•    Heavy Duty Land-based Transport on Biomethane from Local Biogas and Green Hydrogen

Það voru Norrænar orkurannsóknir sem stóðu að ráðstefnunni með fjármögnun Norrænu ráðherranefndarinnar.