Opnað fyrir samkeppni til að finna frumkvöðla snjallborgarinnar

11.01.21 | Fréttir
Copenhagen Amager
Ljósmyndari
Unsplash
Sprotafyrirtækjum á Norðurlöndum og Eystrasalti er í dag boðið að taka þátt í nýrri samkeppni um nýstárlegar, stafrænar lausnir á áskorunum borgarsamfélaga, sem enn mikilvægara er að bregðast við nú en áður vegna COVID-19. Samkeppnin hófst í dag.

Samkeppnin Nordic Smart City Challenge er opin frumkvöðlum sem þróa lausnir sem munu aðstoða stjórnvöld við að skapa þær sjálfbæru og lífvænlegu borgir sem fólk þarf bæði nú og í framtíðinni. Völdum sprotafyrirtækjum verður boðið að kynna lausnir sínar fyrir hópi sérfræðinga og fjárfesta á netviðburði í beinni útsendingu í febrúar. Umsóknarfrestur er til 5. febrúar 2021.

Borgaryfirvöld hafa þurft að bregðast við áhrifum COVID á hegðun borgara og samhliða því hefur aukin áhersla verið lögð á að skapa lífvænlegt umhverfi sem stuðlar að heilbrigðu líferni, starfsemi og sjálfbærni í borgarskipulagi framtíðarinnar og skapa nýjar lausnir til að bregðast við áskorunum borgarsamfélaga. Nordic Smart City Challenge er ætlað að koma auga á þær stafrænu lausnir sem best nýta þau gögn sem eru fyrir hendi til að tryggja að þetta markmið náist.

Kim Spiegelberg Stelzer, stjórnarformaður Nordic Smart City Network, sagði: „Smart City Network opnar fyrir umsóknir í Nordic Smart City Challenge fullt tilhlökkunar. Við hvetjum sprotafyrirtæki í öllum borgunum 20 til að taka þátt í þessu frábæra verkefni um að leysa lykiláskoranir á borð við borgarskipulag, gagnalæsi og samgöngur“.

Svein Berg, stjórnandi Nordic Innovation, sagði: „Nordic Smart City Challenge er sérstaklega mikilvægt nú þar sem aldrei hefur áður verið meiri þörf á stafrænum lausnum til að hanna sjálfbærar og lífvænlegar borgir.“

Kiann Stenkjær Hein, framkvæmdastjóri PUBLIC í Danmörku, sagði: „PUBLIC er spennt að hleypa Nordic Smart City Challenge af stokkunum. Verkefnið er fyrsta mikilvæga skrefið í átt að samnorrænum GovTech-markaði sem mun hafa gríðarlega kosti í för með sér fyrir öll norræn tæknifyrirtæki.“

Nordic Smart City Challenge á í samtarfi við viðburðinn Nordic Fund Event, sem rekinn er af Nordic Edge, í tengslum við Nordic Smart City Startup-dagana 18. og 19. febrúar 2021. Auk þess að fá leiðsögn frá lykilaðilum í Nordic Smart City Network verður sprotafyrirtækjum sem senda inn vinningstillögur einnig boðið á viðburð Nordic Edge Fund þann 19. febrúar. 

 

Nánari upplýsingar fást á: