Hæfisreglur Norrænu ráðherranefndarinnar

Með stoð í k-lið 10. gr. Starfsreglna Norrænu ráðherranefndarinnar sem Norræna ráðherranefndin (MR-SAM) samþykkti hinn 29. febrúar 2016 er ákveðið

Markmið

1. gr. Markmið vanhæfisreglna er að fyrirbyggja að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á meðferð einstakra mála eða áðstafana, að útiloka tortryggni gagnvart starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar, að koma í veg fyrir að óhlutdrægni ráðherranefndarinnar verði dregin í efa.

Skipun fulltrúa í fjölskipaðar nefndir o.fl.

2. gr. Þeim sem taka þátt í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar er skylt að vera á verði gagnvart hættu á endurteknum eða stöðugum hagsmunaárekstrum sbr. 3. gr. við skipan fulltrúa til ákveðinna starfa eða í fjölskipaðar nefndir.

Hæfi

3. gr. Um er að ræða vanhæfi í tilteknu máli ef

  1. viðkomandi á sjálfur persónulegra eða efnahagslegra hagsmuna að gæta við meðferð máls, er eða hefur verið í sama máli fulltrúi einhvers sem á slíkra hagsmuna að gæta, þar á meðal einstaklinga, lögaðila eða opinberra yfirvalda;
  2. maki viðkomandi, náskyldur ættingi eða aðrir honum nákomnir eiga persónulegra eða efnahagslegra hagsmuna að gæta við meðferð máls, eru fulltrúar einhverra sem eiga slíkra hagsmuna að gæta, þar á meðal einstaklinga, lögaðila eða opinberra yfirvalda;
  3. viðkomandi tekur þátt í stjórn eða hefur önnur náin tengsl við fyrirtæki, félag eða annan lögaðila eða stofnun, þar á meðal stjórn eða vinnuhópa innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar, sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta við meðferð málsins;
  4. málið varðar eftirlit með stofnun, norrænni stofnun, vinnuhópi, fagráði norrænnar stofnunar eða sambærilegu sem fellur undir starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar, og viðkomandi hefur áður komið að úrskurði eða ráðstöfunum varðandi málið eða
  5. að öðru leyti liggja fyrir aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni viðkomandi í efa.

2. mgr. Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef eðli eða umfang umræddra hagsmuna, eðli málsins eða hlutverk viðkomandi eru ekki talin skapa hættu á að niðurstaða málsins ráðist af ómálefnalegum sjónarmiðum.

4. gr. Ákvæði 3. gr. eiga ekki við

  1. ef talið er erfiðleikum bundið eða uppi eru efasemdir um að annar komi í stað viðkomandi (staðgengill) að meðferð málsins eða
  2. ef fjölskipuð nefnd er ekki lengur ákvörðunarbær, eða ef tillit til samsetningar nefndarinnar gefur tilefni til töluverðra efasemda þegar viðkomandi fulltrúi tekur ekki þátt í afgreiðslu málsins og ekki er hægt að fresta málinu án þess að Norræna ráðherranefndin hljóti töluverðan skaða af.

Þeir sem reglurnar taka til

5. gr. Starfsfólk á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, fulltrúar í ráðherranefndum, embættismannanefndum, vinnuhópum, stýrihópum, starfsfólk og fulltrúar stjórna, fagráða og þess háttar á norrænum stofnunum, sem falla undir starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar, lúta hæfisreglum þessum.

2. mgr. Norræna ráðherranefndin getur ákveðið hvort einstaklingar sem fara með fé Norrænu ráðherranefndarinnar eða sinna verkefnum fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar eigi að virða innihald ákvæða 1., 3., 5., 6. og 7. gr.

Úrskurður um hæfi

6. gr. Þeim sem kunnugt er um eða grunar að 1. mgr. 3. gr. eigi við um hagi viðkomandi, ber að gera yfirmanni sínum viðvart eins skjótt og unnt er nema augljóst sé að umrædd atriði skipti ekki máli.

2. mgr. Ef um er að ræða fulltrúa í fjölskipaðri nefnd, þar á meðal embættismannanefnd, vinnuhópi, stýrihópi eða stjórnum eða fagráðum norrænna stofnana innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar, ber að gera formanni viðkomandi stofnunar viðvart.

3. mgr. Ráðningaryfirvöld eða viðkomandi stofnun úrskurða um hæfi einstaklings, sbr. 1. og 2. mgr.

4. mgr. Viðkomandi er ekki heimilt að taka þátt í meðferð eða úrskurði um eigið hæfi, sjá þó 4. gr.

Áhrif vanhæfis

7. gr. Sá sem er vanhæfur í máli má ekki taka ákvörðun, taka þátt í ákvörðun eða taka þátt í meðferð viðkomandi máls.

2. mgr. Sá sem er vanhæfur getur fengið staðgengil í sinn stað.

Gildistaka

8. gr. Reglur þessar sem voru ákveðnar af norrænu samstarfsnefndinni 29. febrúar 2016 taka gildi 1. mars 2016.

2. mgr. Fyrri hæfisreglur Norrænu ráðherranefndarinnar falla brott frá sama tíma.