Breytt geópólitísk staða kallar á nánara norrænt samstarf í atvinnumálum

12.10.23 | Fréttir
Nøringsministermöte
Photographer
Charlotte de la Fuente
Þörf er á auknu samstarfi Norðurlanda á sviði atvinnumála í tengslum við græn umskipti, gervigreind og stafræna þróun. Þetta var niðurstaða nýafstaðins norræns fundar um atvinnumál þar sem norrænir ráðherrar ræddu breytta geópólitíska stöðu og áherslur í atvinnumálum fram til ársins 2030.

Heimsmyndin er breytt og ný geópólitísk spenna er komin upp. Það hefur neikvæð áhrif á aðfangakeðjur og samkeppnishæfi Norðurlanda í atvinnumálum. Því er þörf á nýjum norrænum lausnum sem efla löndin hvert um sig jafnt sem svæðið í heild. Þetta var þema ráðherrafundar sem haldinn var í boði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Í alþjóðlegri samkeppni um fólk, fyrirtæki og spennandi tækifæri eru Norðurlöndin sterkari saman. Við getum bæði lært hvert af öðru um leið og við markaðssetjum okkur sem spennandi áfangastað fyrir heiminn.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Aukinn kraft þarf í græn umskipti

Ofan á loftslagsvandann, sem Norðurlönd glíma nú þegar við, bætist orkukreppa og áhyggjur af afhendingaröryggi. Ráðherrunum ber þó saman um að til séu lausnir til að mæta þessum áskorunum. Þær er er að finna í grænum umskiptum en á því sviði verðum við að spýta í lófana, að sögn ráðherranna. Það er hægt að gera í norrænu samstarfi til þess að styðja við þróun, útbreiðslu og útflutning á grænum lausnum. 

Ævintýraleg tækifæri fólgin í nýrri tækni og gervigreind

Stafræn þróun og gervigreind eru svið sem eru nátengd grænum umskiptum. Á fundi ráðherranna ríkti einhugur um að stafrænar lausnir, gervigreind og notkun gagna muni flýta fyrir grænum umskiptum og stuðla að því að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Jafnframt voru ráðherrarnir sammála um að Norðurlönd þurfi að vera á verði gagnvart þeim áskorunum sem nýrri tækni og gervigreind fylgja til þess að tryggja jákvæð áhrif þessara þátta á samkeppnishæfi Norðurlanda.

Um þetta segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar:

 

Ný tækni er forsenda grænna umskipta. Þess vegna þurfum við, sem lýðræðisleg samfélög, að tryggja að við þróun og notkun nýrrar tækni verði lýðræðisleg og siðferðileg gildi og óskir og þarfir íbúa höfð að leiðarljósi.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar