Eystrasaltsþingið sæmir Bertel Haarder hjá Norðurlandaráðinu orðu

06.09.22 | Fréttir
Bertel Haarder
Photographer
Ásgeir Ásgeirsson

Bertel Haarder fær orðuna afhenta á fundinum í Reykjavík. Til vinstri er forseti Eystrasaltsþingsins, Jānis Vucāns.

Eystrasaltsþingið heiðrar Bertel Haarder með orðu fyrir ötula og langvarandi vinnu sína við að efla samstarfið á milli Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins. Orðan, Medal of Baltic Assembly, var afhent þegar Norðurlandaráð hélt septemberfundi sína á Íslandi 5.-7. september.

Orðan er veitt einstaklingum stuðlað hafa að því að efla tengslin á milli Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins. Þessi tvennu þingmannasamtök hafa unnið náið saman í marga áratugi og er orðan til marks um hið góða samband.

Jānis Vucāns, forseti Eystrasaltsþingsins, afhenti orðuna í Reykjavík. Við athöfnina undirstrikaði Inese Voika, fulltrúi á Eystrasaltsþinginu, að störf Haarders hafi haft mikla þýðingu fyrir samstarfið.

„Bertel Haarder hefur stutt Eystrasaltsþingið í 31 ár. Hann hefur sýnt að Norðurlönd og Eystrasaltsríkin geta unnið saman. Saman erum við sterkari,“ segir Inese Voika, fulltrúi í forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins.

Bertel Haarder frá Danmörku hefur setið í Norðurlandaráði til fjölda ára og gegnt þar embætti forseta.

Í ræðu sinni við athöfnina lagði Haarder áherslu á mikilvægi samstarfs við Eystrasaltslöndin.

„Ég er mjög ánægður með að hafa fengið þessa orðu frá vinum okkar við Eystrasaltið. Það er mikilvægt að við vinnum að því að efla samkenndina til að auka öryggi við Eystrasaltssvæðið. Við eigum að standa saman með Eystrasaltslöndunum og gera allt sem við getum í þágu lýðræðis á svæðinu.“

Bertel Haarder tileinkar orðuna Uffe heitnum Elleman-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, fyrir öflugt starf hans að því að efla samstarf Eystrasaltsríkjanna og Norðurlanda.

Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið halda fund í tengslum við septemberfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Jafnframt halda þau í sameiningu alþjóðlegan leiðtogafund með fulltrúum frá Úkraínu og forsvarsfólki stjórnarandstöðunnar í Belarús og Rússlandi.

Á fundinum verður rætt hvernig Eystrasaltsríkin og Norðurlönd gætu stuðlað að jákvæðri þróun til framtíðar á þessum slóðum.

Contact information