Frá aktívisma til evrópsks minningardags um fórnarlömb loftslagsvárinnar

03.12.23 | Fréttir
Benjamin
Photographer
Andreas Omvik/norden.org
Þegar hinn belgíski Benjamin missti 15 ára danska vinkonu sína, Rosu, í flóði vegna loftslagsbreytinga hóf hann að berjast fyrir réttlæti fyrir hana og önnur fórnarlömb. Nú hefur Evrópuþingið samþykkt að 15. júlí ár hvert skuli haldinn evrópskur minningardagur um fórnarlömb loftslagsvárinnar.

Árið 2021 hélt Benjamin Van Bunderen Robberechts í sumarbúðir fyrir ungt fólk í Ardennafjöllum, í aðeins örfárra klukkustunda fjarlægð frá heimaborg hans, Brussel. Þar hitti hann danska stúlku, Rosu, og urðu þau strax góðir vinir.

En hinir sólríku dagar í sumarbúðunum með nýjum vinum entust ekki lengi. Á þriðja degi fór að rigna með þeim afleiðingum að fljótlega urðu ofsafengin flóð sem rakin eru til loftslagsbreytinga. Rosa fórst í flóðunum.

„Ég var í áfalli í marga mánuði og gat ekkert gert. Það kom að því að ég spurði mig hvað Rosa hefði gert í mínum sporum og þá kviknaði sú hugmynd að stofna hreyfingu í þágu réttlætis til handa fórnarlömbum loftslagsbreytinga,“ segir Benjamin Van Bunderen Robberechts.

Loftslagsbarátta leiðir af sér evrópskan minningardag

Benjamin hefur því helgað sig því að segja sögu Rosu og reyna að fá stjórnmálamenn heimsins til þess að taka loftslagsbreytingarnar alvarlega. Öll sú vinna sem Benjamin hefur lagt í #ClimateJusticeForRosa hefur vakið athygli í efstu lögum evrópskra stjórnmála.

Fyrr á þessu ári lagði Margrethe Vestager, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tillögu fyrir Evrópuþingið þess efnis að 15. júlí ár hvert skuli vera evrópskur minningardagur um fórnarlömb loftslagsvárinnar. Frans Timmerman, varformaður „European Green Deal“ skrifaði undir tillöguna þann 13. júlí 2023 og er dagurinn því orðinn opinber minningardagur.

Ég var í áfalli í marga mánuði og gat ekkert gert. Það kom að því að ég spurði mig hvað Rosa hefði gert í mínum sporum og þá kviknaði sú hugmynd að stofna hreyfingu í þágu réttlætis til handa fórnarlömbum loftslagsbreytinga

Benjamin Van Bunderen Robberechts

Veðuröfgar verða algengari með hlýnun jarðar

Minningardagur færir okkur engan aftur en vonandi getur hann vakið fleiri til vitundar um að berjast verði gegn loftslagsbreytingum. Óveðrið sem reið yfir mörg lönd Evrópu árið 2021 kostaði yfir 200 mannslíf.

Að sögn loftslagsvísindamanna munu flóð færast í aukana samhliða loftslagsbreytingum.

Viðburður á COP28

Hluti af yfirtöku ungs fólks á Nordic Talks á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á COP28 fólst í því að tveir danskir sendifulltrúar ungs fólks, Marcus Taulborg og Lise Coermann Nygaard, buðu Benjamin Van Bunderen Robberechts í spjall um verkefni hans, Climate Justice for Rosa, og um það hversu mikilvægt það er að styðja þau sem verst verða úti vegna loftslagsbreytinganna.  

„Við viljum vekja athygli á því með hve mismunandi hætti loftslagsbreytingar hafa áhrif á mismunandi samfélög og einstaklinga og á þörfinni á réttlæti í þessum efnum,“ segja dönsku fulltrúarnir tveir, Marcus Taulborg og Lise Coermann Nygaard.