Grein: Líf á norðurslóðum
Elisabeth Aspaker, samstarfs- og sjávarútvegsráðherra
Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
Í samstarfsáætlun Norðurlandanna um málefni norðurslóða eru íbúar þeirra í brennidepli. Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar hefur leitt til mörg hundruð verkefna og starfsemi og gripið hefur verið til pólitískra aðgerða sökum loftslagsbreytinga, umhverfis, náttúru og sjálfbærrar þróunar en einnig á sviði heilbrigðismála, menningar og hæfnisþróunar. Markmiðið er sjálfbær þróun þar sem borin er virðing fyrir náttúrunni og velferð íbúanna á norðurslóðum.
Viðfangsefni sem loftslagsbreytingarnar hafa í för með sér verða aðeins leyst ef við gerum upp við hugmyndir okkar um norðurslóðir sem ísilagða auðn og tölum frekar um lifandi svæði sem ber að þróa í samstarfi við fólkið sem þar býr.
Rúmlega fjórar milljónir manna búa á norðurslóðum eða næstum jafnmargir og íbúar Noregs. Lítið ber þó á þeim í fjölmiðlum. Það sem skiptir sköpum er að í alþjóðlegum viðræðum verði tekið tillit til íbúa norðurslóða þar sem réttur þeirra til sjálfsákvörðunar og samfélagsþróunar er virtur.
Byggð ból
Kiruna-yfirlýsingin var samþykkt í Norðurskautsráði 15. maí 2013. Þar er því slegið föstu að norðurslóðir séu umfram allt byggð svæði. Orðalagið er einkum mikilvægt fyrir réttindi frumbyggja. Það eru ekki eingöngu ísbirnir sem eiga í vök að verjast heldur eru hefðbundir lífshættir íbúa norðurslóða í bráðri hættu.
Alþjóðasamfélagið ver gífurlegum fjárhæðum í rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruna, ekki síst vestanhafs í BNA og Kanada. Norðurlöndin eru nokkuð ein um að fjárfesta í heilbrigðis- og félagslegum rannsóknum á norðurskautssvæðum. Ein ástæðan er sú að flestir íbúar norðurslóða eru Norðurlandabúar.
Þróun atvinnulífsins
Samfara bráðnun heimskautsíssins opnast möguleikar til siglinga um Norður-Íshaf milli Evrópu og Asíu. Norðurskautsráðið og Norðurlöndin hafa tekið virkan þátt í Polar Code-verkefninu sem felst í að semja reglur um siglingar á heimskautasvæðum. Verkefninu lýkur væntanlega í árslok 2014. Polar Code-reglurnar eiga ekki að kveða á um hvort siglt verði á svæðunum heldur að gerðar verði strangar kröfur til skipa sem sigla um norður- og suðurskautshöf.
Norræna ráðherranefndin – samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlandanna – hefur verið áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðinu frá árinu 1996. Öll Norðurlöndin leggja mikla áherslu á að sjálfbær og nútímaleg velferðarsamfélög skapist á norðurslóðum. Norræna ráðherranefndin tekur virkan þátt í starfi Norðurskautsráðs sem miðar að því að efla sjálfbæra atvinnuþróun á norðurskautssvæðum.
Efla má samspil atvinnulífsins og samfélagsins ef fyrirtækin axla samfélagslega ábyrgð. Hin nýju sóknarfæri í olíuvinnslu, námurekstri og siglingum auka hættu á olíuleka, losun út í andrúmsloftið og staðbundinni mengun. Því er mikilvægt að fyrirtækin geri sitt til að koma í veg fyrir mengunarslys.
Norrænar aðgerðir í umhverfismálum
Hætta á mengunarslysum í olíuiðnaði og siglingum er helsta ógnin sem steðjar að umhverfinu. Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem fram fór í Kiruna í Norður-Svíþjóð í maí 2013 var undirritaður bindandi samningur um gagnkvæma aðstoð ríkjanna vegna olíumengunar í hafi. Samningurinn skuldbindur norðurskautsríkin átta til að vinna saman að viðbúnaði gegn olíumengun, upplýsa og aðstoða hvert annað þegar slys ber að höndum og halda sameiginlegar björgunaræfingar.
Á árinu 2013 hófst ný norræn samstarfsáætlun um umhverfisvænan námurekstur með yfirskriftinni NordMin. Markmið hennar er að skapa vettvang fyrir sjálfbæran hagvöxt og efla samkeppnishæfni norræns námuiðnaðar.
Umhverfisráðherrar Norðurlandanna sendu frá sér Svalbarða-yfirlýsinguna í mars 2012. Nú er unnið að hugmyndum um þjónustu vistkerfa og framhald sameiginlegra aðgerða ráðherranna í því skyni að draga úr skammvinnum loftslagsspillum. Fram að þessu hafa sameiginlegar fjárfestingar Norðurlandanna í umhverfismálum átt þátt í draga úr losun koltvísýrings sem nemur 10,2 milljón flugferðum fram og tilbaka frá Ósló til Parísar.
Vistfræðileg fótspor á norðurhjara verða ekki til heima fyrir heldur má rekja þau til alls heimsins. Ríkin megna ekki ein og sér að leysa viðfangsefni norðurslóða. Því verða norðurskautsríkin að starfa þétt saman, á svæðinu sem og á alþjóðlegum vettvangi. Þetta er kjarninn í samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurskautssvæðanna.
Greinin birtist fyrst í norska dagblaðinu Verdens Gang 19. janúar 2014.