Kristina Háfoss frá Færeyjum er nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs

14.12.20 | Fréttir
Kristina Háfoss
Photographer
Ditte Mathilda Joensen
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað á fundi sínum 14. desember að ráða Kristinu Háfoss framkvæmdastjóra á skrifstofu ráðsins í Kaupmannahöfn. Kristina Háfoss er þingmaður fyrir Þjóðveldisflokkinn á færeyska lögþinginu. Hún var fjármálaráðherra Færeyja á árunum 2015–2019. Kristina Háfoss er fædd árið 1975 og auk þess að starfa að stjórnmálum hefur hún unnið í tryggingageiranum. Hún er hagfræðingur og lögfræðingur að mennt.

Staða framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs er laus frá 1. febrúar því að Britt Bohlin, núverandi framkvæmdastjóri, lætur af störfum.

Kristina Háfoss er full eftirvæntingar að taka við hinu nýja starfi.

„Landanna bíður að takast á við mörg mikilvæg verkefni á næstu árum,“ segir Kristina Háfoss. „Mér er það mikill heiður að fá tækifæri til að vinna með Norðurlandaráði og forsætisnefndinni,“ segir verðandi framkvæmdastjóri. Hún nefnir endurreisnina eftir COVID-19, norðurskautssvæðin, stafvæðinguna og loftslagsmálin.  

„Ég hlakka mikið til að mega vinna að því að leysa úr þessum málum í samvinnu við Norðurlandaráð,“ segir Kristina Háfoss.

Bertel Haarder er forseti Norðurlandaráðs frá og með áramótum og hann lýsir mikilli ánægju með nýjan framkvæmdastjóra.

„Með tilkomu Kristinar Háfoss fær Norðurlandaráð mjög vel menntaðan framkvæmdastjóra sem hefur mikla reynslu úr opinberri stjórnsýslu og er vel undir þetta starf búinn. Það á ekki síst við um stafræna tækniþróun en eftir því sem fram vindur og ferðalögum okkar og hefðbundnum fundum fækkar, þeim mun frekar verðum við að reiða okkur á slíka tækni,“ segir Bertel Haarder.

„Mér finnst einnig ánægjulegt að við fáum nú fyrsta framkvæmdastjórann úr ríkjasambandinu, það er að segja danska konungdæminu, og það í Færeyingi sem hefur allt til brunns að bera.“

Fyrsti framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs frá Færeyjum og danska ríkinu

Samkvæmt Helsingforssamningnum, sem liggur til grundvallar norrænu samstarfi, skortir dálítið á að Færeyjar, Álandseyjar og Grænland njóti sömu stöðu og ríkin fimm í samstarfinu, Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland og Ísland.

„Sem betur fer kemur þetta ekki á nokkurn hátt í veg fyrir að við felum Færeyingi ábyrgð á allri stjórnsýslu okkar,“ segir Bertel Haarder. „Þetta er dæmi um góðan samstarfsanda í Norðurlandaráði sem við þurfum svo mikið á að halda á tímum kórónuveirunnar þegar reynir hvað eftir annað á samstarfsþróttinn,“ segir hann.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, núverandi forseti Norðurlandaráðs, er á sama máli og Bertel Haarder.

„Við í Norðurlandaráði erum afar ánægð með að fá Kristinu Háfoss til liðs við okkur,“ segir hún.

Kristina Háfoss tekur við sem framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs hinn 1. febrúar 2021.