Nordic Safe Cities heldur áfram sem sjálfseignarstofnun

17.02.20 | Fréttir
Safe Cities
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Árið 2020 markar upphaf nýrrar vegferðar borgabandalagsins Nordic Safe Cities í átt að enn öflugra samstarfsneti, en það mun nú halda áfram göngu sinni sem sjálfseignarstofnun. Þessi umbreyting undirstrikar velgengni verkefnisins og tilurð enn nánara norræns samstarfs um að tryggja öryggi á svæðinu.

„Ég tel það frábæran árangur að við höfum ýtt úr vör verkefni sem nú getur staðið óstutt sem samstarfsnet milli borga. Nordic Safe Cities hefur svo sannarlega verið, og verður eflaust áfram, í fararbroddi þessa mikilvæga starfs sem þarfnast víðtæks stuðnings,“ sagði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki, í ræðu sinni á ráðstefnu Nordic Safe Cities í Stokkhólmi. Víða um heim ríkir ótryggt ástand og mörg lönd verða fyrir hryðjuverkaárásum. Árásirnar eru vísbending um að æ meira fari fyrir ofbeldisfullu ofstæki, klofningi og hatri í samfélögum Norðurlanda. Öfgahyggja og ofbeldisfullt ofstæki ógna ekki aðeins almennu öryggi heldur einnig þeim grundvallargildum sem norræn samfélög byggja á. Þessi ógn elur á ótta og vantrausti í samfélögum, skólum, íbúabyggðum og á samfélagsmiðlum.

Fætt 2016, fullvaxið 2020

Nordic Safe Cities var ýtt úr vör af Norrænu ráðherranefndinni árið 2016 sem andsvari við hörmulegum hryðjuverkaárásum og neikvæðri samfélagsþróun. Nú, fjórum árum síðar, hefur verkefnið sýnt og sannað að það getur staðið á eigin fótum sem sjálfseignarstofnun. Í samræmi við formennskuáætlun Dana í Norrænu ráðherranefndinni 2020 má líta á Nordic Safe Cities sem fyrirmyndardæmi um framtak sem er smátt í sniðum í upphafi en fært um að vaxa, geta af sér myndarleg verkefni og loks verða að sjálfseignarstofnun.

Nordic Safe Cities er nú betur í stakk búið en nokkru sinni fyrr til að bæta og efla stuðning við stefnumörkun á sviði öryggismála í þeim norrænu borgum sem eiga aðild að samstarfsnetinu, greiða fyrir því að norræn líkön um fyrirbyggjandi aðgerðir verði kynnt fyrir umheiminum og laða að nýja samstarfsaðila og fjármagn, borgunum til stuðnings.

Ég tel það frábæran árangur að við höfum ýtt úr vör verkefni sem nú getur staðið óstutt sem samstarfsnet milli borga. Nordic Safe Cities hefur svo sannarlega verið, og verður eflaust áfram, í fararbroddi þessa mikilvæga starfs sem þarfnast víðtæks stuðnings

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

10 milljónir norskra króna til norskra borga

Norska stofnunin Gjensidigestiftelsen styrkti norskar borgir í samstarfsneti Nordic Safe Cities um rúmlega 10 milljónir norskra króna innan ramma nýs verkefnis. Verkefnið nefnist „Öruggar norskar borgir“ og hefur það markmið að efla borgarsamfélög í Noregi og stuðla að aukinni öryggistilfinningu íbúa. Ingrid Tollånes, yfirmaður úthlutana hjá Gjensidigestiftelsen, fagnar hinu nýtilkomna samstarfi. Hún sagði:

„Við kynnum með stolti nýja verkefnið okkar: „Öruggar norskar borgir". Metnaður stendur til þess að verkefnið, í samstarfi við bandalagið Nordic Safe Cities, muni leiða til nýrra og markvissra verkefna í norskum borgum sem gera samfélögum kleift að stuðla að opnum og öruggum borgum og fyrirbyggja hatur, ofbeldi og öfgahyggju.“