Norðurlönd veita 250 milljónum danskra króna til græns og stafræns atvinnulífs
Verkefnunum er ætlað að auðvelda norrænum fyrirtækjum að starfa þvert á landamæri og styðja framtíðarsýnina um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030. Pakki atvinnumálaráðherranna tekur til átta verkefna sem standa árin 2021-2024 og nema framlögin 250 milljónum danskra króna. Ráðherrarnir samþykktu verkefnin á fjarfundi 1. september.
„Þessi átta verkefni sem við sameinuðumst um í dag eru gott dæmi um að loftslagsaðgerðir, græn og stafræn umbreyting og uppbygging í kjölfar kórónuveirufaraldursins eiga samleið. Verkefni á sviði hringrásar- og sjálfbærra viðskiptalíkana, grænna flutninga og stafrænnar þróunar styrkja stöðu Norðurlanda sem leiðandi afls í grænni nýsköpun og frumkvöðlastarfi og stuðla þannig að sjálfbærum hagvexti til framtíðar og nýjum störfum,“ segir Simon Kollerup, atvinnumálaráðherra Danmerkur og formaður norrænu atvinnumálaráðherranna árið 2020.
Græn og samkeppnishæf Norðurlönd
Samgöngumál eru meðal þeirra sviða þar sem atvinnumálaráðherrarnir sjá mikil tækifæri í auknu samstarfi. Ráðherrarnir hyggjast meðal annars vinna græna norræna samgönguáætlun um flutninga á sjó. Markmiðið er að knýja norræna flutningabíla og skip í auknum mæli með grænni orku.
Einnig verður í pakka ráðherranna fjárfest í stafrænum lausnum á sviði flutninga. Því er ætlað að skapa aukin tækifæri til þess að skiptast á gögnum á þessu sviði, sem þá ætti að leiða til þess að flutningabílar og skip losni við að ferðast með tómar lestir.
Atvinnumálaráðherrarnir vilja einnig sjá nýjar fjarfestingar á sviði líftækni og heilbrigðistækni. Norræn fyrirtæki í þessum geira eru þegar leiðandi á heimsvísu en þó eru tækifæri til þess að gera betur. Mikilvægur liður í því er að gera mismunandi aðilum kleift að miðla og fá aðgang að heilbrigðisgögnum á öruggan hátt þvert á landamæri Norðurlandanna.
Ráðherrarnir hyggjast auk þess styrkja stöðu Norðurlandanna á sviði umskipta til hringrásarhagkerfis og græns hagkerfis með verkefni sem snýr að viðskiptalíkönum fyrir hringrásarhagkerfi, gögn og stafræna þróun.
Þá munu framlög einnig renna til byggingargeirans. Markmiðið er að hægt verði í auknum mæli að endurnýta byggingarefni og að heimili verði loftslagsvænni. Auk þess eru veitt framlög til sjálfbærari námuvinnslu og málmvinnslu.
„Verkefni atvinnumálaráðherranna eru öflug fjárfesting og stuðla að sterkari og sjálfbærari Norðurlöndum. Þau eru mikilvæg skref í metnaði okkar til umbreytinga til græns, hringrásar- og kolefnishlutlauss atvinnulífs í samræmi við framtíðarsýn okkar. Það skiptir máli bæði fyrir loftslagið og hagkerfi okkar,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Auðveldara fyrir fyrirtæki þvert á Norðurlönd
Áframhaldandi fjárfesting í Nordic Smart Government (NSG) er hluti af pakka ráðherranna en það er ein mikilvægasta norræna samstarfsáætlunin á sviði atvinnulífsins næstu árin. Á fundinum var samþykkt og ýtt úr vör stefnumótunaráætlun verkefnisins, einnig nefnt roadmap.
Markmiðið með NSG er að gera fjárhagsupplýsingar fyrirtækja aðgengilegar og nothæfar til nýsköpunar og vaxtar á öruggan hátt. Það á að gera svæðið gagnsærra og samþættara þar sem auðveldara verður fyrir norræn fyrirtæki að stunda viðskipti innbyrðis, tilkynna til stjórnvalda og þróa nýjar stafrænar lausnir með betri og aðgengilegri gögnum.
„Með Nordic Smart Government fáum við gögn um fyrirtæki í rauntíma. Það gefur fyrirtækjum betri yfirsýn yfir fjárhagsstöðu sína og auðveldar til dæmis fyrirtækjum að fá lánshæfismat frá banka með skjótari hætti. Gögn í rauntíma auðvelda fyrirtækjum að stunda viðskipti á réttum tíma og skapa einnig flæði fjármagns á markaði en það er til mikils gagns bæði fyrir viðskipti og velferð,“ segir Simon Kollerup.
Nordic Smart Government kemst brátt á næsta stig þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar munu vinna náið saman að því að innleiða tiltekin verkefni. Eitt af fyrstu skrefunum er að auka notkun rafrænna reikninga þvert á Norðurlönd þannig að auðvelt verði að bókfæra reikning frá Svíþjóð í Danmörku.
Verkefnin átta sem voru samþykkt nú verða fyrst og fremst rekin af Nordic Innovation, stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.