Norrænar lausnir í orkumálum – nýtt tölublað „Green Growth the Nordic Way“

09.06.16 | Fréttir
Havvindmøller ved Samsø
Photographer
Anne Sofie Bender/norden.org
Í þessu tölublaði „Green Growth the Nordic Way“ má lesa um nýja útgáfu skýrslunnar „Nordic Energy Technology Perspectives“ (NETP), sem unnin var af Norrænum orkurannsóknum í samstarfi við Alþjóðlegu orkumálastofnunina (IEA). Í henni eru útlistaðar leiðir að því markmiði að hagkerfi Norðurlanda verði orðin kolefnislaus árið 2050, sem IEA telur raunhæft. Þá hefur Jorma Ollila, fyrrum framkvæmdastjóri Nokia, verið falið að greina ýmsa þætti þessa ætlunarverks. Árið 2017 mun Ollila birta skýrslu með niðurstöðum greiningar á norrænu orkumálasamstarfi, sem er samþættasta samstarf heims á því sviði, þó að eflaust sé enn svigrúm til umbóta.

Stefna í orkumálum, endurnýjanlegir orkugjafar og sjálfbær orka gegna lykilhlutverki við lausn loftslagsvandans. Skipulagning á orkubirgðum okkar mun hafa mikil áhrif á það hvernig við mætum þeim áskorunum sem framundan eru. Í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtogafundar Bandaríkjanna og norrænu landanna í maí síðastliðnum var lögð áhersla á að Bandaríkin og Norðurlöndin viðurkenndu það grundvallarhlutverk sem orka gegnir í hagkerfum okkar og að öryggi í orkumálum væri lykilatriði fyrir öryggi almennt.

Norðurlöndin urðu fyrst til þess að rjúfa tengslin milli hagvaxtar og kolefnislosunar og sýndu þannig fram á að mögulegt væri að stefna að sjálfbærara hagkerfi. Hvað varðar samþættingu endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu, höfum við þegar náð þeim árangri sem IEA segir heimsbyggðina þurfa að hafa náð 2040 til að uppfylla það markmið Parísarsamkomulagsins að halda hlýnun jarðar innan tveggja gráða á Celsíus.