Norrænar lausnir í orkumálum – nýtt tölublað „Green Growth the Nordic Way“

Stefna í orkumálum, endurnýjanlegir orkugjafar og sjálfbær orka gegna lykilhlutverki við lausn loftslagsvandans. Skipulagning á orkubirgðum okkar mun hafa mikil áhrif á það hvernig við mætum þeim áskorunum sem framundan eru. Í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtogafundar Bandaríkjanna og norrænu landanna í maí síðastliðnum var lögð áhersla á að Bandaríkin og Norðurlöndin viðurkenndu það grundvallarhlutverk sem orka gegnir í hagkerfum okkar og að öryggi í orkumálum væri lykilatriði fyrir öryggi almennt.
Norðurlöndin urðu fyrst til þess að rjúfa tengslin milli hagvaxtar og kolefnislosunar og sýndu þannig fram á að mögulegt væri að stefna að sjálfbærara hagkerfi. Hvað varðar samþættingu endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu, höfum við þegar náð þeim árangri sem IEA segir heimsbyggðina þurfa að hafa náð 2040 til að uppfylla það markmið Parísarsamkomulagsins að halda hlýnun jarðar innan tveggja gráða á Celsíus.