Norrænt sjónarhorn á COP27

25.10.22 | Fréttir
people aurora cop27
Photographer
Oliver Dixon/Shutterstock/Ritzau Scanpix
Árlegur loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna verður haldinn í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi dagana 6. til 18. nóvember. Norrænt samstarf verður á staðnum.

Norrænu löndin eru með metnaðarfull loftslagsmarkmið og við erum þess fullviss að við áorkum meiru með því að vinna saman. Þess vegna tókum við höndum saman á árlegum loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna 2015 (COP) til að koma á samráði og skiptast á þekkingu um loftslagslausnir og -vandamál. Hvaða lausnir höfum við? Og hvaða lausnir vantar okkur enn?

Það sama er uppi á teningnum í ár. Yfir 50 viðburðir fara fram í norræna skálanum á COP27 sem spanna fjölbreytt svið málefna sem tengjast loftslagsbreytingum og lausnum. Við munum meðal annars ræða kolefnisbókhald, græna orku, borgir framtíðarinnar, hvernig við endurbyggjum með grænum hætti eftir stríð, matvælakerfi, mikilvægi skóga, samband loftslags og kyns, fjármögnun réttlátra grænna umskipta, tæknilegar lausnir, náttúrumiðaðar lausnir, tap og tjón og líffræðilega fjölbreytni. Listinn er nú þegar orðinn langur en þetta eru bara nokkur þeirra mála sem rædd verða.

Til að binda þetta saman verður skálinn opnaður með málþingi ungs fólks sem greinir frá því sem það vill sjá koma út úr samningaferlinu hjá skrifstofu rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Á lokadegi viðræðnanna verður þeim boðið aftur til að fara yfir árangurinn á COP27 og hverjar af væntingum þeirra hafi verið uppfylltar og hverjar ekki.

Raddir ungs fólks í norræna skálanum

Í ár verður norræni skálinn vettvangur þar sem norræn æskulýðssamtök geta tekið þátt í umræðum og samráðið á COP27.Þau munu ráða dagskránni á átta viðburðum í norræna skálanum og taka þátt í fjölmörgum öðrum. Þau skora á norrænu löndin að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í áföngum, að styðja alþjóðleg lög um vistmorð, að setja ramma um áhrif ungs fólks á loftslagsstefnuna og herða stefnu sína varðandi líffræðilega fjölbreytni.

Það er mikilvægt fyrir okkur sem unga Norðurlandabúa að vera viðstödd COP27 því þar munu leiðtogar heimsins hittast til að ræða um aðgerðir í loftslagsmálum.

Nadia Gullestrup Christensen, formaður danska ungmennaráðsins um loftslagsmál 

Nánari upplýsingar verða birtar á næstu dögum.