Ný bók: Skandinavíusambandið sem næstum varð á 19. öld

17.09.21 | Fréttir
Nordiska rådets president Bertel Haarder med boken om skanindavismen, flankerad av författarna Morten Nordhagen Ottosen och Rasmus Glenthøj.

Ny bok om skandinavismen

Photographer
Matts Lindqvist

Forseti Norðurlandaráðs Bertel Haarder með bókina um skandinavisma við hlið höfundanna Morten Nordhagen Ottosen og Rasmus Glenthøj.

Hversu nærri var Skandinavía myndun sambandsríkis um miðja 19. öld? Mun nær en áður hefur verið talið samkvæmt nýrri rannsókn. Bismarck og Napóleon þriðji studdu hugmyndina og í Kaupmannahöfn fundust víðtækar áætlanir um valdarán til að greiða götu sambandsríkisins. Hundrað árum síðar varð Norðurlandaráð til, sem byggir á skandinavisma 19. aldar.

„Ég held að það megi kalla þetta ótrúleg tíðindi. Pólitískur skandinavismi hafði verið afskrifaður sem útópía og rómantísk hugsjón en eftir því sem við rannsökum meira um efnið verður skýrara að það ber að taka hann alvarlega. Skandinavíusamband var raunhæfur möguleiki um miðja 19. öld,“ segir sagnfræðingurinn Rasmus Glenthøj.

Hann hefur ásamt kollega sínum Morten Nordhagen Ottosen rannsakað skandinavisma og afraksturinn er bókin Union eller undergang – Kampen for et forenet Skandinavien. Bókin kom út á föstudag en var kynnt deginum á undan á varnarmálamálþingi sem skipulagt var af Norðurlandaráði.

Skilaboð höfundanna eru skýr: endurskoða þarf hugmyndina um skandinavisma, þar sem sameiningarhugsjónin er ekki afskrifuð sem útópía.

Alþjóðlegur stuðningur við sambandsríki

Rasmus Glenthøj bendir á tvennt sem sýnir að sambandsríki Danmerkur og Svíþjóðar-Noregs (sem var þá þegar sambandsríki) hafi verið mun raunhæfari möguleiki en áður hefur verið talið.

Í fyrsta lagi var mikill alþjóðlegur stuðningur fyrir skandinavísku sambandsríki. Þungaviktakmaður stjórnmálanna á 19. öld, Otto von Bismarck, tók virkan þátt í að greiða götu sambandsríkisins og Napóleon þriðji og Viktoría Bretlandsdrottning studdu hugmyndina einnig.

Auk þess fundust víðtækar áætlanir hjá pólitísku elítunni í Kaupmannahöfn um að ræna dönsku konungsfjölskyldunni og láta Karl fimmtánda konung Svíþjóðar og Noregs taka við völdum og fara með stjórn hins skandinavíska sambandsríkis. Þessar áætlanir komu vissulega í ljós í fyrri rannsóknum en Rasmus Glenthøj segir nýjar heimildir nú hafa fundist sem ólíkt þeim fyrri hafi að geyma nöfnin á bak við byltingaráformin.

„Í fyrsta lagi hefur þetta í för með sér aukinn trúverðugleika. Í öðru lagi er þetta hreint út sagt ótrúlegt þar sem málið teygir anga sína í efstu raðir stjórnmálanna í Danmörku á þessum tíma,“ segir Glenthøj.

Þau nöfn sem fram koma eru C.C. Hall, ráðsforseti (forsætisráðherra) og utanríkisráherra frá 1857 til 1863, sem var merkasti stjórnmálamaður Danmerkur á þessum tíma. Annað nafn er Hans Rasmussen Carlsen sem var innanríkisráðherra árið 1894.

Einn af fremstu stjórnmálamönnum Svíþjóðar á þessum tíma, Louis De Geer, var á meðal þeirra sem heilluðust af sameiningarhugmyndinni, samkvæmt Glenthøj og Ottosen. Það sama á ekki við um annan mikilvægan stjórnmálamann 19. aldar, fjármálaráðherrann Johan August Gripenstedt, sem talaði fyrir skandinavisma í þinginu árið 1848 en varð síðar einn af hörðustu andstæðingum hans.

Höfundarnir segja að áformin um sambandsríki hafi einnig notið stuðnings í sænsk-norsku konungshöllinni. Konungarnir Óskar fyrsti (konungur 1844-1859) og Karl fimmtándi (1859-1872) auk Óskars prins (síðar Óskar annar, 1872-1905/1907) voru allir áhugasamir um skandinavisma og voru fullmeðvitaðir um það sem var að gerast. Höfundarnir benda á að á sama tíma voru einnig margir Svíar og Norðmenn andvígir þessum áformum, þar á meðal stjórnmálamenn.

Danakonungur nálægt því að afsala sér völdum

Að sögn Glenthøj og Ottesen voru nokkur tækifæri fyrir stofnun sambandsríkis um miðja 19. öld, sérstaklega í fyrsta Slésvíkurstríðinu árin 1848–1849, við lok Krímstríðsins árin 1856–1857 og vorið 1864 í stríði Danmerkur og Þýskalands. Í bókinni er því meðal annars lýst að danski konungurinn Kristján níundi hafi í júní 1864 verið aðeins örfáaum klukkustundum frá því að afsala sér völdum til að gefa skandinavísku sambandsríki gæti tekið við.

Spurningin er því: hvers vegna ekkert varð af sambandsríkinu?

„Til að svara því þarf að taka marga þætti til greina sem saman leiddu til þess að ekkert varð sambandsríki. Þetta snýst um pólitík, tilviljanir og fólk. Ýmis atriði stóðu í vegi fyrir stofnun sambandsríkis, bæði fólk, skipulag og landafræðistjórnmál, en um leið heyrðust raddir um að slíkt væri mögulegt.“

Í bókinni benda höfundarnir sérstaklega á að engan skandinavískan leiðtoga líkt og Cavour (sem sameinaði Ítalíu) hafi verið að finna sem hefði getað séð hvenær mestir möguleikar væru til sameiningar.

Rasmus Glenthøj segir að hin hefðbundna söguskýring, að stórveldin og Rússland hafi verið sameiningunni andsnúin, haldi ekki vatni, þar sem rannsóknir hans og Ottosen sýni að Frakkland, Prússland og England hafi stutt hana.

Rætur Norðurlandaráðs

Glenthøj sér skýr tengsl milli vaxandi skandinavisma 19. aldar og Norðurlandaráðs, sem var stofnað árið 1952 og fagnar 70 ára afmæli sínu á næsta ári.

„Skandinavismi er hugmyndafræðin sem liggur að baki norrænu samstarfi í dag. Grunnhugmyndin er að eiga sameiginlegan uppruna, sameiginlega menningu og sögu og vera skyld. En ef þú spyrð hvort norrænt samband sé á næsta leiti er svar mitt nei. Rannsóknir á borð við þessar geta þó hugsanlega aukið meðvitund um styrk norræns samstarfs.“

 

Um höfundana:

Rasmus Glenthøj er lektor í samtímasagnfræði við Háskóla Suður-Danmerkur. Hann ritaði áður „1864 – Sønner af de slagne,“ sem hann fékk H.O. Lange-verðlaunin fyrir.

Morten Nordhagen Ottosen er lektor í sagnfræði og stefnumálu við Varnarmálaháskólann í Osló. Áður ritaði hann ásamt Glenthøj bókina „1814 – krig, nederlag, frihed,“ sem þeir fengu Norrænu sagnfræðibókaverðlaunin fyrir árið 2017.

Árin 1814-1905 voru Svíþjóð og Noregur sameinuð í sambandsríki.

Á 19. öld tilheyrðu Ísland, Grænland og Færeyjar Danmörku.

Á árunum 1809-1917 var Finnland stórhertogadæmi í Rússlandi.

Bókin Union eller undergang – Kampen for et forenet Skandinavien er gefin út af Gads-forlaginu í Danmörku, af Academic Press í Noregi og verður gefin út af Historiska Media í Svíþjóð.

Contact information