Ný framtíðarsýn í norrænu samstarfi

19.06.19 | Fréttir
MR-Sam möttes i Hella på Island juni 2019.

MR Sam möttes i Hella på Island juni 2019

Photographer
Matts Lindqvist
Svæði sem er enn samþættara en hingað til og í forystu á heimsvísu á sviði loftslagsmála og sjálfbærni, það er sýn norrænu samstarfsráðherranna á hver mikilvægustu markmiðin eigi að vera í sameiginlegri norrænni stefnumótun næsta áratuginn. Í framtíðarsýninni birtast mikilvægustu markmið samstarfsins. Forsætisráðherrarnir eiga enn eftir að samþykkja hana en þeir eiga lokaorðið um forgangsröðun Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norrænu samstarfsráðherrarnir komu sér saman um nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf á fundi sínum á Hellu 19. júní, að loknum ítarlegum undirbúningi. Forsætisráðherrarnir munu fjalla um framtíðarsýnina á fundi sínum í ágúst og taka endanlega ákvörðun.

Sjálfbær og samþætt Norðurlönd

„Ég er ánægður,“ segir íslenski samstarfsráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem stýrði fundi samstarfsráðherranna.
„Við vorum frá upphafi sammála um að við vildum að framtíðarsýn okkar fyrir samstarfið yrði bæði metnaðarfull og skýr og það er hún núna,“ segir hann.

Framtíðarsýnin byggist á að Norðurlönd eigi að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi innan tíu ára.

„Hún grundvallast á styrkleikum Norðurlanda og eiginleikum og tekur einnig mið af þeim væntingum sem við vitum að Norðurlandabúar hafa til norræns samstarfs,“ segir Sigurður Ingi.

Við vorum frá upphafi sammála um að við vildum að framtíðarsýn okkar fyrir samstarfið yrði bæði metnaðarfull og skýr og það er hún núna.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Framtíðarsýnin stýrir starfsemi og fjárveitingum

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir framtíðarsýnina vera mikilvægasta stefnumótandi skjal samstarfsins. 

„Framtíðarsýnin og sú forgangsröðun í stefnumótum sem er útfærð í henni mun hafa áhrif á alla starfsemi okkar og að sjálfsögðu einnig fjárveitingar á næstu árum,“ segir hún.  

Lehtomäki telur að skýr forgangsröðun auðveldi samstarfið.

„Það er gott að vita nákvæmlega hvað löndin leggja áherslu á í starfi okkar.“

Stefnumótandi forgangsröðun til fjögurra ára

Þegar forsætisráðherrarnir hafa fjallað um framtíðarsýnina munu fagráðherrar Norrænu ráðherranefndarinnar hver um sig kynna markmið sín og verkefni sem er ætlað að raungera hin háleitu markmið framtíðarsýnarinnar og forgangsröðunarinnar.

Forgangsröðin sem nú var samþykkt á að stýra starfinu næstu fjögur árin.

Danmörk gerði fyrirvara um ákvörðunina uns ný ríkisstjórn hefur verið mynduð en þingkosningar eru nýafstaðnar í landinu.