Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands afhendir verðlaun á norrænni verðlaunahátíð

31.10.22 | Fréttir
Finlands statsminister Sanna Marin
Photographer
Laura Kotila/Regeringskansliet
Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs verður send út beint frá Musikhuset í Helsingfors 1. nóvember Vinningshafarnir munu taka við sigurlaunum sínum úr höndum Sönnu Marin forsætisráðherra Finnlands, Jenni Haukio, ljóðskáldi og eiginkonu Finnlandsforseta, Sophiu Hansen, stjórnarformanni Moomin Characters Oy Ltd og Petri Piiranen, framkvæmdastjóra RePacks VD, sem einnig hlaut umhverfisverðlaunin árið 2017. Handhafi tónlistarverðlaunanna í fyrra, Eivør, afhendir verðlaun og treður jafnframt upp á hátíðinni sem sýnd verður í öllum norrænu löndunum.

Á hátíðinni verður tilkynnt um verðlaunahafa og þeir hylltir. Kynnar verða Andrea Reuter og Christoffer Strandberg. Einnig verður boðið upp á glæsileg atriði. Meðal annars verður flutt dansverk eftir Sofiu Ruija, myndbandsverk eftir Arash Irandoust og tónlist eftir Wegelius kammarstråkar. Færeyska tónlistarkonan Eivør, sem hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2021, rekur svo endahnútinn á kvöldið.

Hver geta unnið? Hér eru tilnefningarnar!

Alls eru 50 verk og verkefni frá öllum norrænu löndunum tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs 2022 á sviði umhverfismála, tónlistar, kvikmynda, bókmennta og barna- og unglingabókmennta. Á meðal tilnefninganna er að finna það besta sem Norðurlönd hafa upp á að bjóða þegar kemur að skáldsögum, ljóðasöfnum, myndabókum og unglingabókum, leiknum kvikmyndum, plötum með raftónlist, þjóðlagatónlist og listrænni tónlist, ásamt verkefnum sem leggja áherslu á náttúrumiðaðar lausnir.

Verðlaunahafar hljóta að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur. Þessi afhenda verðlaunin í ár:

  • Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, afhendir kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2022
  • Eivør Pálsdóttir, tónlistarkona sem hlaut tónlistarverðlaunin 2021, afhendir tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2022
  • Petri Piirainen, framkvæmdastjóri RePacks og verðlaunahafi 2017, afhendir umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022
  • Sophia Jansson, stjórnarformaður Moomin Characters Oy Ltd., afhendir barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022
  • Jenni Haukio, ljóðskáld og eiginkona Finnlandsforseta, afhendir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022

Bein útsending frá verðlaunahátíðinni í öllum norrænu löndunum

Bein útsending hefst frá Musikhuset í Helsingfors kl. 20.00 (að finnskum tíma / CET +1) og verður hægt að fylgjast með henni á YLE Teema / YLE Fem í öllum norrænu löndunum fimm. Einnig verður sýnt frá verðlaunahátíðinni á öðrum norrænum ríkisrásum. Sjá upplýsingar í sjónvarpsdagskrá hvers lands.

Um þing Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tengslum við 73. þing Norðurlandaráðs í Helsingfors. Þingið er helsti norræni stjórnarmálavettvangur ársins. Þar koma saman 87 þingmenn, forsætisráðherrarnir og utanríkisráðherrarnir ásamt ýmsum öðrum ráðherrum frá öllum Norðurlöndunum.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs eru ein virtustu verðlaun sem veitt eru á Norðurlöndum. Bókmenntaverðlaunin, sem fagna 60 ára afmæli í ár, eru elst verðlaunanna fimm. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Á eftir þeim fylgdu tónlistarverðlaunin, umhverfisverðlaunin, kvikmyndaverðlaunin og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin. Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana. Árið 2022 er afmælisár því bókmenntaverðlaunin fagna 60 ára afmæli og 20 ár eru frá því kvikmyndaverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn.