Söguleg ákvörðun færir ungu fólki aukin áhrif í norrænum stjórnmálum

28.10.22 | Fréttir
Rasmus Emborg UNR
Photographer
Johannes Jansson
Norðurlandaráð æskunnar mun eiga rétt á að taka til máls undir öllum liðum á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors. Þannig mun ungt fólk hafa sama rétt og aðrir 87 þingmenn Norðurlandaráðs til að ræða tillögur. Með breytingunum á ungt fólk að fá aukin tækifæri til aðkomu að norrænum stjórnmálum.

Hingað til hefur Norðurlandaráð æskunnar (UNR) getað tekið þátt í umræðum um nokkra dagskrárliði á þingi Norðurlandaráðs. Misjafnt hefur verið eftir þingi hvaða dagskrárliði hefur verið um að ræða. Því hafa tækifæri Norðurlandaráðs æskunnar til að hafa áhrif á ákvarðanir þingsins verið takmörkuð.

Á fundi sínum á Íslandi í september ákvað forsætisnefnd Norðurlandaráðs að Norðurlandaráð æskunnar skyldi hafa rétt til að taka til máls undir öllum dagskrárliðum á þingum Norðurlandaráðs. Það þýðir að Norðurlandaráð æskunnar getur haft áhrif á ákvarðanir þingsins í umræðum.

„Þetta þýðir að ákvarðanirnar sem teknar eru í Norðurlandaráði endurspegla betur sjónarmið og áherslur ungs fólks á Norðurlöndum. Fleiri tillögur ungs fólks geta orðið að veruleika. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir norrænt samstarf og framtíð Norðurlanda,“ segir Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs.

Norðurlandaráð æskunnar fagnaði 50 ára afmæli í fyrra. Starf Norðurlandaráðs æskunnar í þágu tækifæra fyrir ungt fólk til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í norrænu samstarfi er einstakt.

Ný sjónarhorn á norræn vandamál

Í gegnum árin hefur Norðurlandaráð æskunnar barist fyrir auknum áhrifum. Í samráði við Norðurlandaráð hefur Norðurlandaráð æskunnar óskað eftir því að hafa sama rétt til að taka til máls og aðrir þingmenn. Norðurlandaráð æskunnar vill geta lagt sitt af mörkum með nýju sjónarhorni á lausn þeirra vandamála sem Norðurlönd standa frammi fyrir.

„Í gegnum árin höfum við átt gott samráð við norræna þingmenn og starfsfólk Norðurlandaráðs um mikilvægi aðkomu ungs fólks. Við höfum gert okkar besta til að koma með vel útfærðar og framsæknar tillögur út frá sjónarhorni okkar á norræn vandamál og höfum upplifað jákvæðar viðtökur. Það hefur þýtt að áhrif okkar hafa sífellt aukist og því var það eðlileg ósk að fá aukinn ræðutíma,“ segir Rasmus Emborg, forseti Norðurlandaráðs æskunnar.

Nei við youth-washing

Kristina Háfoss leggur áherslu á mikilvægi þess að ungt fólk eigi ekki aðeins fulltrúa heldur hafi raunverulega aðkomu að norrænum stjórnmálum.

„Það er mikilvægt að þetta snúist um raunveruleg tækifæri til áhrifa, ekki bara þátttöku. Með ákvörðun forsætisnefndar höfum við séð til þess að Norðurlandaráð æskunnar geti haft raunveruleg áhrif á ákvarðanir Norðurlandaráðs,“ segir Kristina Háfoss.

Til að tryggja pólitísk áhrif Norðurlandaráðs æskunnar hefur Norðurlandaráð komið upp nýju verklagi um þátttöku Norðurlandaráðs æskunnar. Einnig á sér stað samráð á milli skrifstofu Norðurlandaráðs æskunnar og Norðurlandaráðs til að þróa samstarfi frekar svo það gagnist bæði Norðurlandaráði æskunnar, Norðurlandaráði og norrænu samstarfi, jafnt nú sem hér eftir.

Loftslagsmál, geðheilbrigði og Norðurlönd í forystu

Á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors mun Norðurlandaráð æskunnar í fyrsta sinn nýta aukinn rétt sinn til áhrifa. Fulltrúar ungs fólks munu leggja áherslu á loftslagsmál, geðheilbrigðismál og það hvernig Norðurlönd geta verið öðrum löndum heims fyrirmynd í baráttunni fyrir frelsi og lýðræði.

„Fjórðungur ungs fólks glímir við andleg veikindi. Við þurfum að skoða hvernig við getum fengið fleira ungt fólk til að taka þátt í félagsstarfi þar sem það getur gleymt sér og orðið hluti af einhverju stærra. Jafnframt er mikilvægt að við höldum áfram að berjast fyrir frelsi og lýðræði í heiminum. Norðurlönd eiga að vera í fararbroddi þeirra sem þora að berjast fyrir betri heimi. Síðast en ekki síst þykir mörgu ungu fólki ekki nóg að gert í loftslagsmálum. Við verðum að standa okkur betur í að virkja ungt fólk í loftslagsbaráttunni og sýna árangurinn þannig að unga fólkið sjái hann,“ segir Rasmus Emborg.