„Stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að hvetja ekki til hatursorðræðu á netinu“

23.10.15 | Fréttir
Kai Alajoki
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Reynt er að þagga niður í ungmennum, sem eru virk í stjórnmálum, með hatursorðræðu kynjamisréttis á netinu. „Til lengri tíma litið er þetta stórt vandamál fyrir lýðræðið,“ segir Kai Alajoki, forseti Norðurlandaráðs æskunnar, en árlegt þing ráðsins hófst í dag í Reykjavík.

Þingið hófst á málþingi um hatursorðræðu á netinu með þátttakendum frá öllum Norðurlöndunum.

Fólk virðist ekki skilja hve særandi svona skilaboð eru.

Jafnréttisráðherra Íslands, Eygló Harðardóttir, opnaði þingið en hún hefur oftsinnis fengið hatursfull skilaboð í tölvupósti og gegnum samfélagsmiðla.

„Ég held að allt stjórnmálafólk hafi lent í því. Fólk virðist ekki skilja hve særandi svona skilaboð eru. Það skrifar ýmislegt sem það segði aldrei augliti til auglitis,“ segir hún.

Hún telur mikilvægt að stjórnmálamennirnir sýni gott fordæmi og svari ekki í sömu mynt.

 „Það versta sem maður getur gert í svona aðstæðum er að gefa tröllunum rými til að tjá sig, segir Eygló Harðardóttir.

Kæra ekki sjálf

Sænska blaðakonan og rithöfundurinn Caroline Engvall tók þátt í umræðunum og færði rök fyrir því að réttarkerfið yrði að finna og koma til móts við þau börn sem yrðu fyrir netofsóknum, þar sem börnin kærðu sjaldnast sjálf til lögreglu.

Norski sérfræðingurinn Helga Eggebø lagði áherslu á að hafa yrði hliðsjón af kyni og kynvitund við skilgreiningu á hatursglæpum. Hatursglæpir sem grundvallast á kynjamisrétti bitna einkum á ungum konum og ungu hinsegin fólki.

Á þriðjudaginn koma þingmenn og fulltrúar ríkisstjórna frá öllum Norðurlöndunum til Reykjavíkur á þing Norðurlandaráðs (27–29/10).

„Karlmenn eiga að taka virkan þátt“

Kai Alajoki telur að allir stjórnmálamenn og aðrir sem móta umræðuna beri ábyrgð á að vernda ungt fólk frá hatursorðræðu og ofsóknum á netinu.

„Þessir einstaklingar stýra opinberri umræðu og því er ábyrgð þeirra mikil. Þeir geta gætt þess að hvetja ekki sjálfir til hatursorðræðu, með því að forðast það að tala á fordómafullan hátt eða tjá sig um hluti sem þeir hafa ekki vit á. Þeir ættu að tala af virðingu um alla,“ segir Kai Alajoki.

 Hann telur það ennfremur ósanngjarnt að þeir einstaklingar, sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu gagnvart hatursorðræðu, þurfi að bera hitann og þungann af baráttunni við hatursorðræðu kynjamisréttis.

 „Við karlmennirnir þurfum að taka virkari þátt og taka afstöðu gegn hatursfullri og ógnandi hegðun,“ segir Kai Alajoki.


Staðreyndir: Norðurlandaráð æskunnar er vettvangur stjórnmálasamtaka ungs fólks á Norðurlöndum. Málþingið „Ungas utsatthet på nätet och näthat i Norden“ fór fram í samstarfi við Norrænu barna- og ungmennanefndina (NORDBUK) og Norrænu embættismannanefndirnar um jafnrétti (ÄK-JÄM) og menningu (ÄK-K).