Þjóðarétturinn lykilatriði í yfirlýsingu um Úkraínu

08.04.14 | Fréttir
Á þemaþinginu á Íslandi gaf Norðurlandaráð út eftirfarandi yfirlýsingu um ástandið í Úkraínu.

Nú gildir að halda fast í þjóðarétt, lýðræði og mannréttindi

Staðan í Úkraínu og þau verkefni sem takast þarf á við í tengslum við lýðræðisþróun í landinu voru til umræðu á þemaþingi Norðurlandaráðs á Akureyri 8. apríl síðastliðinn.

Á þessu ári geta Norðurlönd haldið upp á það að friður hefur ríkt milli þeirra í 200 ár.  Þetta langa friðartímabil er einstakt. Þessi sögulega staðreynd hefur gríðarlega þýðingu fyrir Norðurlöndin sem heild. Vegna þessa hefur verið hægt að mynda tengsl yfir landamæri ríkjanna sem byggja á trausti og tiltrú, og mikil samskipti og samstarf eru á öllum stigum.

Ólögleg innlimun Krímskaga í Rússland eftir ólöglega þjóðaratkvæðagreiðslu á Krím um að ganga í Rússneska sambandsríkið er óásættanleg og brýtur í bága við stjórnarskrá Úkraínu. Norðurlandaráð hvetur Rússneska sambandsríkið til þess að grípa til aðgerða sem draga úr spennu. Staðan í suðausturhluta Evrópu hefur áhrif á samskiptin í norðurhluta Evrópu og Norðurlandaráð mun þess vegna meta þróunina vandlega og fylgjast með henni.

Norðurlandaráð tekur undir sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna og Visegrad-ríkjanna sem birt var eftir fund þeirra í Narva í Eistlandi 6.-7. mars 2014. Norðurlandaráð hefur haft samráð aðra þingmenn, það er að segja við samstarfsaðila sína í Eystrasaltsþinginu og við þingmenn frá Póllandi.

Áhuginn á öflugra Eystrsaltssamstarfi kom skýrt í ljós á þeim umræðufundum sem Norðurlandaráð átti með fulltrúum utanríkisnefnda þinga Eystrasaltsríkjanna og Póllands.

Norðurlönd eiga að standa saman með öðrum löndum Evrópu í þessu máli: Þegar athyglin flyst frá Krímskaga til Kíev er mikil þörf á stuðningi við lýðræðisþróunina í Úkraínu.

Ástæða fyrir stuðningnum við Úkraínu í þessum málum er sú að í Norðurlandaráði er löng hefð fyrir því að leggja áherslu á sjónarmið lýðræðis og réttarríkisins. Á sama hátt og Norðurlönd studdu nýju lýðræðisríkin við Eystrasalt fyrir rúmum tuttugu árum vilja Norðurlönd nú styðja lýðræði í Úkraínu.

Nú þarf að móta fyrirkomulag nýs lýðræðissamstarfs. Norðurlandaráð getur fyrst og fremst stutt þingmannasamstarfið. Nú þarf að halda fast í þjóðarétt, lýðræði og mannréttindi.