Ungir blaðamenn: Sjálfbær ferðalög kalla á nýja nálgun

31.08.22 | Fréttir
tågendlare
Ljósmyndari
norden.org
Að kynnast nærumhverfinu, taka lest í stað þess að fljúga og verja tíma í skipulagningu eru nokkur þeirra ráða sem ungir blaðamenn á sviði loftslags- og umhverfismála hafa í tengslum við sjálfbær ferðalög. Fyrst og fremst þurfum við að velta fyrir okkur við hvað við eigum með ferðalögum, þora að hugsa hlutina upp á nýtt og koma á breytingum á mörgum sviðum, bæði sem einstaklingar og í stjórnsýslunni.

Í sumar hefur norrænt samstarf beint kastljósinu að sjálfbærum ferðalögum og átt samtöl við þátttakendur í skiptikerfinu „The Nordic-Canadian Fellowship in Environmental Journalism“ um það hvernig þeir líta á sjálfbær ferðalög. Margir hinna ungu blaðamanna lögðu til að menn breyttu alveg um sjónarhorn þegar kemur að ferðalögum og hvernig þau þurfa að vera og kynnast í staðinn nærumhverfi sínu eða prófa hægvirkari en loftslagsvænni samgöngur.

„Fyrir mér ganga sjálfbær ferðalög út á að við lítum á ferðalög með nýjum hætti og séum meðvituð um þær ákvarðanir sem við tökum. Skipulagningin skiptir miklu máli: Val á áfangastað, samgöngum og gistingu. Tökum lest eða rútu eða hjólum ef það er hægt. Stundum opnast nýir möguleikar á leiðinni þegar maður fer hægar yfir,“ segir Diellza Murtezaj frá Danmörku. Diellza leggur stund á nám í blaðamennsku við háskólann í Hróarskeldu og vinnur sem starfsnemi á danska þinginu.

Breytingar á mörgum sviðum

Þátttakendur voru á einu máli um að málið sé flókið og nálgast þurfi það frá mörgum hliðum. Breytingar þurfa að verða á mörgum sviðum og bæði einstaklingar, atvinnulíf og stjórnmálin bera ábyrgð.

„Það þarf átak meðal einstakra ferðalanga um að velja sjálfbær ferðalög. En það er mikilvægt að teknar séu ákvarðanir sem skipta máli og gagnsæi þarf alltaf að vera til staðar af hálfu iðnaðarins bæði innanlands sem á heimsvísu. Við þurfum enn víðtækara og stöðugra samráð þegar kemur að sjálfbærri ferðamennsku,“ segir Norah Lång frá Álandseyjum. Norah stundar nám í friðar- og átakafræðum við háskólann í Lundi og er m.a. ritstjóri sænska bókmenntatímaritsins Ordkonst.

Meral M. Jamal frá Kanada bendir á hlutverk almenningssamgangna í því að gera fleirum kleift að ferðast með sjálfbærum hætti.

„Ég held að vel útfærðar almenningssamgöngur og borgir þar sem byggðar eru út frá þörfum gangandi vegfarenda skipti miklu máli fyrir okkur sem viljum ferðast með sjálfbærum hætti. Þegar maður kemur til nýrrar borgar eða lands er auðvelt að taka leigubíl eða leigja bílaleigubíl í stað þess að nota almenningssamgöngur. Það er oft raunin hér í Kanada, segir Meral M. Jamal frá Kanada. Meral vinnur sem fréttamaður á ritstjórn CBC Norths Nunavut og er ritstjóri LiisBeth, tímarits um frumkvöðlastarfsemi kvenna í Toronto.

Rannsóknarhlutverk blaðamanna

Blaðamenn leika einnig mikilvægt hlutverk í þróuninni í átt til aukinnar sjálfbærni í ferðalögum. Það snýst bæði um það hvernig menn kjósa að vinna og hvaða fréttir eru sagðar.

„Fyrir blaðamenn skiptir rannsóknarhlutverkið máli og við þurfum að spyrja mikilvægra spurninga um ferðalög og hvað það er sem telst sjálfbært fyrir hvern og einn. Sömuleiðis er mikilvægt að fréttir séu inngildandi. Þegar við sem blaðamenn ferðumst verðum við að muna að við komum öll einhvers staðar frá og við erum alltaf heima hjá einhverjum. Þess vegna er einnig mikilvægt að segja fréttir með fólki en ekki um fólk,“ segir Sara Tingström frá Svíþjóð. Sara er með gráðu í umhverfisblaðamennsku og starfar meðal annars sem samskiptafulltrúi fyrir ungliðahreyfingu WWF í Svíþjóð.

Um The Nordic-Canadian Fellowship in Environmental Journalism

„The Nordic-Canadian Fellowship in Environmental Journalism“ veitir ungum blaðamönnum frá Norðurlöndum og Kanada tækifæri til að afla sér nýrrar þekkingar og stofna til samstarfs. Harbourfront Centre í Toronto leiðir verkefnið sem er hluti af menningarátakinu Nordic Bridges 2022 og er stutt af Norrænu ráðherranefndinni.

Tengiliður