Ungt fólk á COP28 krefst aukinna áhrifa fyrir löndin í suðri

02.12.23 | Fréttir
Jasmin Lang, Hamira Kobusingye and Maria Sammuelsen på COP28

Jasmin Lang, Hamira Kobusingye and Maria Sammuelsen på COP28. Foto: Andreas Omvik, norden.org

Photographer
Andreas Omvik, norden.org

Jasmin Lang, Hamira Kobusingye og Maria Sammuelsen á COP28. Mynd: Andreas Omvik, norden.org.

Á fyrsta degi hinnar tveggja vikna löngu loftslagsráðstefnu, COP28, var ungu fólki gefið sviðið í norræna skálanum og nýtti það tækifærið til þess að krefjast aukinna áhrifa fyrir lönd í suðri.

Skilningur á mikilvægi aðkomu ungs fólks að ferlum sem leiða til pólitískrar ákvarðanatöku hefur aukist, ekki síst vegna áhrifa Gretu Thunberg. En markmiðinu er ekki náð að mati hinnar austurrísku Jasmin Lang, sendifulltrúa ungs fólks hjá skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC).

Sendifulltrúar ungs fólks um loftslagsviðræðurnar

Jasmin var ásamt sendifulltrúum ungs fólks frá Danmörku gestgjafi á fyrsta viðburði norræns samstarfs á COP28. Unga fólkið sagði frá reynslu sinni sem æskulýðsfulltrúar hjá UNFCCC og ræddu ýmis mikilvæg málefni og stefnur. Eitt málefni var sérstaklega áberandi í umræðunni, þ.e. skortur á aðkomu ríkja í suðri.

Ungt fólk í suðri fái að hafa áhrif

Jasmin Lang sagði frá því að hún hafi ásamt öðrum austurrískum sendifulltrúum ungs fólks barist í mörg ár fyrir aðkomu ríkja í suðri. Í ár tókst austurrísku ungliðunum að fá fulltrúa ungs fólks í suðri með sem hluta af sendinefnd sinni. Jasmin útskýrir hvers vegna:

„Það skiptir máli að ungt fólk alls staðar að í heiminum fái að taka þátt því ungt fólk á sér ekki aðeins eina rödd. Við erum ólíkir einstaklingar með ólík sjónarmið,“ segir Jasmin Lang, sendifulltrúi ungs fólks frá Austurríki.

Með aðstoð heimalands síns og Austurríkis er Ibiso Ikiroma-Owiye frá Nígeríu því hluti af austurrísku ungliðasendinefndinni, sem hún er auðvitað ánægð með. En það er að hennar mati ekki nóg að hún hafi fengið að vera með:

„Ég myndi vilja sjá fulltrúa ungs fólks frá öllum löndum á öllum svæðum,“ segir Ibiso Ikiroma-Owiye frá Nígeríu.

Lönd í suðri verða verst úti

Það er erfitt að mótmæla því að löndin í suðri eigi líka rétt á því að raddir unga fólksins þeirra fái að heyrast. Að sögn Sameinuðu þjóðanna eru það löndin í norðri sem hafa verið og eru ábyrg fyrir langmestum hluta koldíoxíðslosunarinnar. Afleiðingar þess fyrir löndin í suðri eru gríðarlegir þurrkar, ofsafengin óveður, vatnsskortur og hrun landbúnaðar. Þetta hefur í för með sér aukna fátækt á meðal þeirra landa sem nú þegar eru í hópi þeirra fátækustu í heimi og býr til nýjan straum flóttamanna.