Vanlíðan ungmenna í pólitískum brennidepli

17.01.17 | Fréttir
Unge kvinder med telefoner
Photographer
Benjamin Suomela / Norden.org
Andleg vanlíðan ungs fólks er einn helsti lýðheilsuvandi á Norðurlöndum. Nú í byrjun árs 2017 munu stjórnvöld landanna bera saman ráð sín um hvernig bregðast skuli við vandanum.

„Norðurlönd eiga að vera besti uppvaxtarstaður í heimi fyrir börn og ungmenni.“ Norræn stjórnvöld eiga að hafa markmið þetta fyrir augum í öllu sínu samstarfi eins og fram kemur í nýrri norrænni stefnu um málefni barna og ungmenna.

Margt er enn óunnið þegar kemur að líðan þessa hóps. Í byrjun árs verða haldnir þrír mikilvægir viðburðir um geðheilsu ungs fólks.

20. janúar stendur Norræna velferðarmiðstöðin að ráðstefnu í Ósló undir yfirskriftinni „Ungt fólk á Norðurlöndum – geðheilsa, vinna og menntun“. Markmiðið er að kanna hvaða fjárfestingar stefnumótandi aðilar á Norðurlöndum hafa gert til að bæta velferð ungmenna í löndunum.

Annar norræni leiðtogafundurinn um geðlækningar

„Mesti ójöfnuðurinn í heilbrigðismálum á Norðurlöndum er sá að meðallífslengd fólks með geðræna kvilla er 20 árum styttri en hjá fólki almennt.“

Bent Høie, heilbrigðis- og umönnunarráðherra Noregs, lét þessi orð falla á leiðtogafundi um geðlækningar sem haldinn var í Kaupmannahöfn í nóvember 2015.

Í febrúar standa Norðmenn að öðrum leiðtogafundi um geðlækningar innan ramma samstarfs norrænu ríkisstjórnanna.

Dagana 27. og 28. febrúar verður haldinn leiðtogafundur í Ósló um geðheilsu ungs fólks og ráðstefna um menntun ungs fólks, vinnu og geðheilsu.

Leiðtogafundinn sitja Mette-Marit krónprinsessa, Erna Solberg forsætissráðherra og Camilla Stoltenberg, framkvæmdastjóri norsku lýðheilsustofnunarinnar, auk ýmissa norrænna ráðherra.

Lesið nánar um viðburðina: Leiðtogafundur og ráðstefna Norrænu ráðherranefndarinnar um ungt fólk og geðheilsu

Aðgerðasinninn Deeyah Khan

Uppvaxtarráðstefna í Ósló 30. mars mun fjalla um efnahagslegan ójöfnuð og fátækt barna á Norðurlöndum. Meðal fyrirlesara verður breski prófessorinn Richard Wilkinson en hann heldur erindi undir yfirskriftinni „Áhrif ójöfnuðar“. Deeyah Khan, kvikmyndaleikstjóri og baráttukona fyrir mannréttindum, segir frá áhrifalausum minnihlutahópum. Að ráðstefnunni standa Barna-, ungmenna- og fjölskyldustofan í Noregi og norræna barna- og ungmennanefndin NORDBUK.