Arndís Þórarinsdóttir og Sigmundur B. Þorgeirsson

Arndís Þórarinsdóttir, Sigmundur B. Þorgeirsson
Photographer
Gassi (Arndís Þórarinsdóttir) , Tindur Lilja Hlín H Péturs (Sigmundur B. Þorgeirsson)
Arndís Þórarinsdóttir och Sigmundur B. Þorgeirsson (myndskr.): Bál Tímans - Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár. Myndabók, Mál og menning, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

„Ég hef oft sloppið naumlega. Ég hef verið send í hnakktöskum yfir íslenskar sveitir, ég hef verið geymd í ótryggum húsum og eldur hefur verið borinn að blöðunum mínum. Ég hef farið í hættulegar sjóferðir og verið borin út úr brennandi húsi.“

 

Hvernig skrifar maður um eldgamalt skinnhandrit og mörg hundruð ára gamlan þjóðararf þannig að nútímabörn langi til að lesa? Arndísi Þórarinsdóttur hefur tekist það listilega vel með því að setja sig í spor Möðruvallabókar og skrifa þvæling hennar í gegnum Íslandssöguna sem háskalega spennusögu.

 

Skinnhandritin sem varðveitt eru á Íslandi eru samnorrænn arfur. Þau geyma fornar sögur, kvæði, galdra, lög og fróðleik. Það er mikilvægt fyrir norrænt samfélag að komandi kynslóðir hafi lifandi tengingu við þessa dýrgripi sem margir eru illa farnir en geyma forna þekkingu og sögu okkar allra. Stærst og þekktast þessara handrita er Möðruvallabók, sem í Báli tímans stígur sjálf fram og segir sögu sína í nokkurs konar skáldaðri sjálfsævisögu. Bókin lendir í svaðilförum á landi og sjó, verður fyrir óhöppum og skemmdarverkum og sleppur oft naumlega eins og í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728 og fallbyssuskothríð Englendinga á borgina 70 árum síðar.

 

Frásögnin bregður upp grípandi mynd af þeim sögulegu vendingum sem Arndís lætur handritið ganga í gegnum. Við fylgjum þannig Möðruvallabók eftir á lykilaugnablikum sögunnar bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn, allt frá ritun handritsins fram til okkar daga – og reyndar aðeins lengra, því sögulok eru í framtíðinni. Þannig fær lesandinn tilfinningu fyrir smæð sinni í stóra samhenginu og að hann tilheyri bara stuttum kafla úr sögunni.

 

Myndir Sigmundar fanga lesandann og bæta kröftugu lagi ofan á frásögnina. Þær sýna okkur klæðaburð og híbýli mismunandi tíma, því Möðruvallabók kemur víða við – hún er hálfgerður tímaflakkari. Leiða má líkur að því að myndhöfundurinn hafi fengið innblástur úr skinnhandritum, því sumar myndirnar minna á að skinnblöðin voru margnýtt og undir einni sögu var kannski önnur eldri. Myndirnar eru ólíkar og þjóna mismunandi tilgangi, sumar segja sögu, með vísunum og myndmáli, aðrar vekja upp hughrif í takt við textann.

 

Það er kúnst að gefa gömlu skinnhandriti rödd sem getur tengt börn dagsins í dag við ævafornan menningararf heimsbyggðarinnar. Í Báli tímans hefur það tekist einstaklega fallega með sammannlegri sorg yfir sögunum sem glötuðust og gleðinni yfir þeim sem varðveittust þrátt fyrir endalaust stríðsbrölt mannanna.

 

Arndís Þórarinsdóttir (f. 1982) er rithöfundur og þýðandi sem hefur sent frá sér fjölda bóka fyrir börn og unglinga en einnig ljóð og smásögur. Meðal verka hennar er Blokkin á heimsenda sem hún skrifaði ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur og var tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna og unglingabókmenntir í fyrra. Sigmundur B. Þorgeirsson (f. 1985) er menntaður myndhöfundur sem hefur fjölbreytta reynslu af myndskreytingum, fyrir bækur, kvikmyndir og tölvuleiki.