Åse Ombustvedt og Marianne Gretteberg Engedal (ill.)

Åse Ombustvedt & Marianne Gretteberg Engedal
Ljósmyndari
Eigil Rasmussen-Korsager og Tove K. Breistein
Åse Ombustvedt og Marianne Gretteberg Engedal (ill.) Når er jeg gammel nok til å skyte faren min? Ljóðabók handa unglingum, Ena Forlag, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Faðir hæðir, hrellir og slær son sinn. Ekki bara einu sinni heldur ítrekað og daglega. Hver er upplifun drengsins og hverjar verða afleiðingarnar?

Í Når er jeg gammel nok til å skyte faren min? („Hvenær er ég nógu gamall til að skjóta pabba minn?“, ekki þýdd á íslensku) er þessu andlega og líkamlega ofbeldi lýst. Hér er þó ekki um hefðbundið þjóðfélagslegt raunsæi að ræða því höfundurinn hefur lagt pennann í hönd drengsins, líkt og hann skrifi ljóð í dagbók með sínu eigin tungutaki. Þannig sýnir höfundurinn samstöðu sína með aðstæðum drengsins, ljær textanum ljóðrænan blæ og lætur lesandann verða vitni að niðurlægingunni innan frá.

Séu ljóðin lesin í samhengi draga þau upp nöturlega sögu af harðstjóra á eigin heimili og syni hans. Hinar áþreifanlegu afleiðingar koma fyrst í ljós í samtölum við móður drengsins sem einkennast af uppgjöf, í athugasemdum bróður hans og í draumum drengsins um annað líf. Smám saman verða afleiðingarnar greinilegri. Drengurinn byrjar að forðast jafnaldra sína. Hann vísar umhyggju kennara síns á bug. Hann nær ekki að einbeita sér í skólanum. Hann lendir í áflogum. Hann skrópar. Hann eigrar um göturnar að nóttu til. Og hann hlakkar til að verða nógu gamall til að geta skotið föður sinn.

Gefið er í skyn að faðirinn sé einnig fórnarlamb. Hann hafði sjálfur ofbeldisfullan föður sem fyrirmynd. Nú er drengurinn sem skrifar farinn að líkjast föður sínum. Þetta er kallað félagslegur arfur. Þessi sársaukafulla bók kennir okkur þó ýmislegt og þá má vona að eitthvað breytist.

Ljóð Åse Ombustvedt eru einföld að byggingu en innihaldið er áhrifamikið. Með knöppum, meitluðum setningum og fáum orðum tekst henni að segja mikilvæga og sársaukafulla sögu sem snertir lesandann djúpt.

Bókin er myndskreytt af Skinkeape, sem er listamannsnafn Marianne Gretteberg Engedal. Teikningar hennar einkennast af nákvæmni og næmi og sýna hina erfiðu tilveru drengsins innan og utan frá á víxl. Tilfinningalíf drengsins er dregið upp með grófum, ofsafengnum og dökkum línum. Þetta myndar andstæðu við ytri aðstæður hans, þar sem línurnar eru snyrtilegar og mjóar og þar sem tilfinningar birtast fyrst og fremst í líkama sem er spenntur til hins ítrasta og angistarfullu og einmanalegu drengsandliti.

Åse Ombustvedt (f. 1963) er kennari og rithöfundur. Þetta er þriðja bók hennar.