Asta Olivia Nordenhof

Asta Olivia Nordenhof

Asta Olivia Nordenhof

Photographer
Albert Madsen
Asta Olivia Nordenhof: Penge på lommen. Scandinavian Star. Del 1. Skáldsaga. Basilisk, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Asta Olivia Nordenhof (f. 1988) kvaddi sér fyrst hljóðs árið 2011 með hinu fínlega og tæra prósaverki Et ansigt til Emily, en vakti á sér athygli svo um munaði árið 2013 með ljóðabókinni det nemme og det ensomme. Sú bók hafði til að bera persónulega, óstýriláta, nakta og ástríka raust, auk ofurnæms myndmáls, og vakti mikla athygli í dönskum bókmenntaheimi sem hefur ekki orðið samur síðan. Det nemme og det ensomme hefur komið út í Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum og hlaut meðal annars Montana-bókmenntaverðlaunin.

Sjö ár liðu frá útkomu þeirrar bókar þar til Nordenhof sendi frá sér skáldsöguna Penge på lommen („Peningar í vasann“, hefur ekki komið út á íslensku“), fyrsta hlutann í fyrirhuguðum flokki sjö bóka sem allar hafa einhverja tengingu við hinn skelfilega bruna um borð í ferjunni Scandinavian Star, sem varð 159 manns að bana árið 1990.

Burtséð frá fyrirhuguðum framhaldsbókum er Penge på lommen stórkostleg, sjálfstæð skáldsaga þar sem lesandinn kynnist aðalpersónunum Kurt og Maggie í rafmagnaðri frásögn. Bæði eru þau fædd kringum 1945 og við fylgjum þeim fram og aftur í tíma, í stuttum köflum sem eiga sér stað áður en ástarsamband þeirra hefst, meðan á því stendur og eftir að því lýkur. Um miðbik skáldsögunnar kemur kaflinn „Scandinavian Star“, sem setur hina „litlu“ ævisögu parsins inn í „stærra“ samhengi með gagnrýni á kapítalismann og felur auk þess í sér skýra samantekt á hinum fjölmörgu og flóknu hliðum brunamálsins, sem enn er óleyst.

Kurt og Maggie eru úr allægstu stétt samfélagsins og eiga sameiginlega reynsluna af því að hafa þurft að selja afnot af líkama sínum til að lifa af, auk annars konar kerfisbundins ofbeldis. Þó að Kurt stofni síðar flutningafyrirtæki og þéni þannig peninga í vasann fylgir niðurlæging og vanmáttartilfinning peningaleysisins þeim alla ævi. Þetta hljómar eins og félagslegur raunsæisskáldskapur, og það er það líka. En það sem kemur flatt upp á lesandann er sú gríðarljóðræna og nýskapandi nálgun á tungumálið sem höfundur beitir í lýsingum sínum á tilveru og skynjun Kurts og Maggiear. Á vissan hátt finnst þeim þau vera hlutir á meðal annarra hluta. Kurt finnst oft að líkami hans lifi sjálfstæðu lífi, óháð hans eigin vilja. „Hann svaf og vaknaði með grun um að kennslukonan hefði vakað yfir honum alla nóttina. Það var þá sem hann fór að óttast eigið andlit, að andlitið á honum skrifaði hinum fullorðnu eitthvað meðan hann svæfi“ (19). Eða: „Hann teygir sig eftir bjórnum og höndin er sljó eins og býflugnasvermur“ (24). Maggie finnst hún vera „eins og klippt út úr pöntunarlista“ (37) eða „nánar til tekið eins og svífandi gúrka“ (103).

Penge på lommen er harðneskjuleg og ofsafengin bók, bók sem vill eitthvað. Afar fágætt er að lesa texta sem er svo fullur af samstöðu og laus við dómhörku gagnvart hinum jaðarsettu í samfélagi síðkapítalismans og þeirra innra og ytra lífi, eins og það birtist í hinum skandinavísku velferðarríkjum allt frá sjöunda áratugnum fram á okkar daga. Þetta gerir bókina að innleggi í samtímasögu okkar, að tilraun til að skilja og greina þau gangvirki löngunar og þrár sem liggja til grundvallar síðkapítalísku neyslusvalli og hinni tilheyrandi kreppu sem við stöndum nú frammi fyrir. Og það að höfundurinn megni að lýsa svo ríkulegu og veikbyggðu lífshlaupi með eins áköfu, opnu og hlýju myndmáli og raun ber vitni gerir skáldsöguna jafn geislandi fagra og hún er áleitin.