Elísabet Jökulsdóttir
„Dáinn. Dáinn. Hvernig gat það verið. Hvað þýddi þetta orð.“ Þannig hefst skáldævisaga Elísabetar Jökulsdóttur Aprílsólarkuldi (Eitthvað alveg sérstakt). Frásögn um ást og geðveiki og huggun. Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni.
Sagan hverfist um Védísi sem á þröskuldi fullorðinsáranna verður fyrir því áfalli að missa föður sinn, en reynist ófær um takast á við þær tilfinningar sem því fylgja. Andlát föðurins neyðir hana nefnilega ekki aðeins til að horfast í augu við forgengileika manneskjunnar heldur það hvernig uppvöxturinn á alkóhólíseruðu heimili með tilheyrandi feluleikjum út á við, óreiðu, hildarleik, æðisköstum móðurinnar og fjarlægð í samskiptum hefur mótað persónuleika hennar og tilfinningalíf. Hún er alin upp við það að nota tungumálið til að blekkja sjálfa sig og aðra, til að segja ekki það sem hún meinar og meina ekki það sem hún segir. Frá blautu barnsbeini hefur henni þannig verið innrætt að bæla niður allar tilfinningar og frysta, því ekkert er eins hættulegt og tilfinningar. Treginn sem herjar á Védísi eftir föðurmissinn er þannig litaður reiði og eftirsjá, sem hún veit ekki hvernig hún á að höndla eða tjá. Loks flækist það fyrir henni að syrgja föður sem henni finnst að hún hafi í reynd misst löngu áður – eða mögulega aldrei átt. Stærsta sorgin í lífi Védísar felst nefnilega í því að hún fékk aldrei að upplifa áhyggjuleysi æskunnar sem barn.
Stuttu eftir andlátið og í taugaáfallinu miðju kynnist Védís Kjartani og ástarsamband þeirra bræðir klakabrynjuna innra með henni þannig að hún lætur undan afli tilfinninganna. Samband þeirra einkennist af ástsýki og stöðugri vímuefnaneyslu með tilheyrandi þráhyggjuhugsunum, ótta, kvíða og þunglyndi.
Lýsing Elísabetar á því hvernig Védís missir smám saman tengslin við raunveruleikann vegna veikinda sinna og telur sig heyra og sjá margvísleg skilaboð í umhverfinu sem eru öðrum hulin er meistaralega vel útfærð. Lausbeislaður stíllinn og húmorinn sem á yfirborðinu ríkir geymir þunga undiröldu. Naívur og tær textinn kallast í fagurfræði sinni sterklega á við barnið sem Védís fékk aldrei að vera, en reynir í vanmætti sínum að hlúa að. Elísabet fjallar á tilfinninganæman og ljóðrænan hátt um vandmeðfarið efni og gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur engan ósnortinn.
Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) hefur á þeim rúmlega þrjátíu árum sem liðin eru frá því hún sendi frá sér sína fyrstu bók verið mikilvæg rödd í íslensku samfélagi. Með einlægni, innsæi, húmor og hispursleysi hefur hún snert við lesendum og beint sjónum að vandasömum viðfangsefnum á borð við ástina í öllum sínum myndum, fíkn af ýmsum toga, ofbeldi í samskiptum, geðveiki og geðheilbrigði. Hún hefur sent frá sér ljóð, örsögur, smásögur, skáldsögur og leikrit. Samhliða ritstörfum hefur Elísabet framið ýmsa gjörninga og var heiðurslistamaður alþjóðlega myndlistartvíæringsins Sequences haustið 2021. Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 fyrir Aprílsólarkulda. Hún hefur tvisvar hlotið Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Fyrst árið 2007 fyrir skáldævisöguna Heilræði lásasmiðsins, sem er nokkurs konar systurbók Aprílsólarkulda, og síðan árið 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett, en ári síðar var hún í fyrsta sinn tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók.